138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem þar kom fram. Í mínum huga snýst þetta um sjálfstæði þjóðarinnar og það mætti segja, eins og þingmaðurinn komst að orði, að þetta væri í rauninni sjálfstæðisbarátta þjóðar sem neitaði að láta aðrar þjóðir kúga sig.

Hann kom inn á það í máli sínu að ef samningarnir mundu falla gerist það eitt sem ég tel vera afar gott og mjög hagstætt, þá þurfa Bretar og Hollendingar að sækja kröfur sínar fyrir íslenskum dómstóli, fyrst hjá héraðsdómi og svo væntanlega hjá Hæstarétti. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Er þetta ekki óskastaða fyrir þjóðina að komast í?