138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir góða ræðu þar sem vel var farið yfir lagalegan þátt málsins. Eins velti hv. þingmaður því fyrir sér hvers vegna svo væri komið hjá þessari ríkisstjórn og mér heyrðist hann komast að þeirri niðurstöðu að það væri vegna þess að hún teldi að ekki væri hægt að ná meiru fram. En það sem ég er að velta fyrir mér er hvort stór hluti vandans gæti ekki líka verið sá að ríkisstjórnin hafi aldrei haft trú á málstað Íslands eins og reyndar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar lýsti ágætlega í viðtali, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að menn hafi litið svo á að þeir væru að fara í þessar viðræður sem sakamenn. Nú í morgun lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir að við yrðum að fallast á þetta frumvarp, þessar breytingar frá Bretum og Hollendingum, til að uppfylla skuldbindingar okkar. Það gefur til kynna að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki meint neitt með yfirlýsingum um að okkur væri ekki lagalega skylt að greiða þetta.