138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir fyrirspurnirnar. Ég er á þeirri skoðun og hef haldið því fram úr ræðustól að það sé hægt, æskilegt og nauðsynlegt að taka málið aftur inn í nefndirnar og ég trúi því að menn væru þar tilbúnir að leggjast yfir þá hluti sem m.a. hafa komið fram eftir að málið var tekið út úr fjárlaganefnd. Ég trúi því að það sé það sem þjóðin sé að biðja okkur um, að spyrja og fá svör.

Ég get alveg skilið að menn séu með miklar efasemdir um að það sé vilji hjá stjórnarliðum til þess því að hann hefur ekki komið fram. Maður hefur getað lesið það úr þeim fáu ræðum sem hér hafa verið fluttar að æskilegt sé bara að klára þetta og, eins og hv. þingmaður sagði, að málið væri komið í skýran og endanlegan búning. Það get ég hins vegar ekki sætt mig við að taka undir, að þetta sé skýr og endanlegur búningur.

Til að bera saman verklag vinnunnar í sumar og svo í haust er í sjálfu sér einfaldast að átta sig á því að þá náðist ákveðin samstaða í þinginu en núna er allt upp í loft. Það er gríðarleg gjá á milli þessara hópa. Hún er það líka í samfélaginu og ég held að ég fari rétt með að það sé komið nokkuð á þriðja tug þúsunda fólks sem skorar á forsetann á indefence.is að staðfesta ekki þessi lög ef þau illu heilli verða borin upp til atkvæða og samþykkt.

Ég trúi því að það muni bæta málið á margan hátt og verða þinginu til mikils sóma ef við tökum þetta aftur (Forseti hringir.) til gaumgæfilegrar athugunar í nefndum þingsins áður en við berum það inn í atkvæðagreiðslu.