138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er alveg ljóst að það er ýmislegt sem við vildum gjarnan ná fram í auknum upplýsingum um innihald þessa máls eins og það liggur fyrir. Hv. þingmaður gerði það að umtalsefni að ekki hefði verið fengið sérstakt álit breskra lögfræðinga á innihaldi og túlkun á þeim skuldbindingum sem hér liggja fyrir. Virðulegi forseti, klukkan mín er —

(Forseti (RR): Forseti mun gæta þess að þingmaðurinn tali á þeim ræðutíma sem hann hefur.)

Þakka þér kærlega fyrir það, hæstv. forseti. Varðandi það atriði sem ég spurði út í þá mótaðist spurning mín af þeim ástæðum að fyrir liggur einbeittur brotavilji, eins og ég hef stundum kallað það, ríkisstjórnar Íslands í að koma þessu máli í gegn. Vinna Alþingis í sumar fólst í því að reyna að gera á því breytingar til að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð. Það sem ég hef saknað sérstaklega í því frumvarpi sem hér liggur fyrir — ég vildi óska þess að það lægi ekki fyrir í þessari mynd heldur væru menn að leita annarra samninga en hér um ræðir.

Það hefur vakið sérstaka athygli mína hversu illa endurskoðunarákvæðum þessara lánasamninga er fyrir komið í þessum samningum. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili ekki þeirri skoðun minni að það sé það atriði sérstaklega — vörnin fyrir íslenska þjóð í þeim samningum sem þarna liggja fyrir í ljósi þeirrar óvissu sem fram undan er í íslenskum efnahagsmálum — sem við þurfum að kippa í liðinn.