138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir svarið. Eins og ég sagði áðan eru upphæðirnar í samningunum skýrar í erlendum myntum. Upphæðin er skýr í íslenskum krónum eins og skráð var 22. apríl og þar á milli er gengismunur eins og er í öllum íslenskum lánum sem greiða á í erlendri mynt. Skuldbindingarnar liggja ljósar fyrir og eru fyrirsjáanlegar samkvæmt samningunum. Samningarnir liggja enn þá fyrir, ákvæði í þeim eru skýr, upphæðirnar eru skýrar. Engu hefur verið breytt, ekki varðandi höfuðstól lána, frá því í sumar þegar fyrirvararnir voru samþykktir, m.a. af þingmönnum Framsóknarflokksins. Höfuðstóll lánanna hefur ekki breyst. Vaxtatalan hefur ekki breyst. Hún er enn í 5,5%. Ég spyr hv. þingmann hvort að hans mati bjóðist betri vextir á lánasamningum líkt og við erum að ræða um hér og þá hvar. Ef þeir bjóðast verður að taka þá og í samningunum eru ákvæði sem heimila uppgreiðslu á þeim og ef betri kjör bjóðast verður það nýtt.