138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að blanda mér aðeins í umræðuna áðan þar sem menn luku andsvörum en það var mjög merkilegt sem kom þar fram. Hv. þm. Björn Valur Gíslason hélt því fram að það lægi fyrir hver skuldbinding íslensku þjóðarinnar yrði ef við skrifuðum undir Icesave-samningana. En það er akkúrat það sem þrír lögfræðingar hafa verið að skrifa um og hafa skilað greinargerð til fjárlaganefndar um að hugsanlega sé verið að brjóta stjórnarskrána vegna þess að við vitum hvorki hver upphæðin er né lengd í tíma, því að það eru svo margar óvissar stærðir í þessum samningum, til að mynda gengisáhættan við það að binda gengi innlánstryggingarsjóðs við 22. apríl, heimtur úr þrotabúi Landsbankans og margt, margt fleira. Því er alveg með ólíkindum að hv. þingmenn komi hér upp og segi að aldrei sé neinn nýr flötur á málinu, þetta sé eitthvert málþóf í stjórnarandstöðunni og þar fram eftir götunum, og virða svo ekki þessa ágætu menn og marga aðra, bæði almenna borgara og sérfræðinga, sem hafa einmitt skrifað um þetta mál og bent á þessa hluti og alla þessa óvissu. Látum nú vera ef hv. þingmaður væri í einhverjum pólitískum hjólförum að pexa og rexa við mig eða einhvern annan stjórnarandstæðing en að koma hér upp og segja að þetta liggi allt saman klárt fyrir, það segir manni bara, virðulegur forseti, að hv. þingmenn, margir hverjir, kynna sér ekki málið. Það er alveg með ólíkindum að upplifa það að menn fullyrði svona. Maður verður eiginlega sífellt daprari yfir því hvernig þetta er.

Þá velti ég því líka upp, frú forseti, að í umræðunni núna, í 2. umr. um Icesave-samningana, hafa fimm stjórnarliðar tekið til máls, þ.e. tveir hæstv. ráðherrar og fjórir hv. þingmenn, afsakið, frú forseti, svo maður geri ekki lítið úr þessu, til þess að ræða fundarstjórn forseta eða fara í andsvör með ákveðnum útúrsnúningum. Það segir kannski allt um það hvers vegna hv. þingmenn, margir hverjir, treysta sér ekki til að koma upp í ræðustól og verja afstöðu sína og þá ákvörðun að styðja þessa samninga. Ég velti því alvarlega fyrir mér, frú forseti: Hafa margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ekkert kynnt sér þessa samninga og vita þeir ekki um hvað þeir fjalla? Ég rifja upp, virðulegi forseti, orð hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, sem hún sagði í sjónvarpsviðtali þegar ríkisstjórnin lagði fram samningana og vildi samþykkja þá. Þá sagði hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir að margir ráðherranna væru ekki búnir að lesa samningana. Virðulegi forseti. Ég rengi ekki orð hv. þingmanns og ég er ansi hræddur um að það sé enn þá þannig. Ég hræðist a.m.k. mjög að það séu jafnvel ekkert margir hv. þingmenn búnir að kynna sér það alveg ofan í kjölinn um hvað þetta mál fjallar. En samt sem áður er það svo, frú forseti, að þetta er ekki mál sem kemur og fer, menn eru ekki að taka ákvörðun um neina smáhluti. Við erum að taka þá ákvörðun eins og bent er á í grein sem skrifuð er af Sigurði Líndal, Stefáni Má Stefánssyni og Lárusi Blöndal, og vitnað hefur verið í í sambandi við stjórnarskrána, þar sem því er bara velt upp hvort við séum að fórna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, það er ekkert minna á ferðinni. Síðan kom hæstv. fjármálaráðherra hingað í gær og sagði: Leyfið mér bara að axla ábyrgð. Það er ekki svoleiðis, frú forseti, að það sé einn maður eða nokkrir hv. þingmenn hér inni sem gera það. Það er auðvitað þannig að það mun á endanum lenda á íslenskri þjóð að greiða þetta.

Síðan fór hæstv. ráðherra, í umræðunni í gær, að telja upp þau mál sem stjórnarandstaðan á síðasta þingi hefði liðkað fyrir og ekki verið í neinu málþófi um, sem hann hélt að við værum í en við erum sko alls ekki komin í. Þegar ég fer í málþóf, virðulegi forseti, skal ég tilkynna það formlega þegar ég er búinn að fara yfir alla efnisþætti málsins sem ég tel mig þurfa að gera. Þeir koma alltaf fleiri og fleiri upp í hugann þegar maður upplifir það að menn koma upp í andsvör og opinbera vanþekkingu sína á málinu. Hæstv. ráðherra sagði þetta í gær þegar hann taldi upp gjaldeyrislög o.fl. En þetta eru þannig lög, virðulegi forseti, sem hægt er að breyta, þeim var hægt að breyta um leið og hæstv. fjármálaráðherra var kominn í stjórn í vetur eða hvenær sem það var. En þessum lögum hér verður ekki hægt að breyta, menn geta ekki breytt þessum lögum, það er ekki nokkur einasta leið, það er bara ekki möguleiki.

Það sem við erum að gera hér og þess vegna er ég lafhræddur við þetta mál, er það að hugsanlega erum við að setja svo miklar skuldabyrðar á íslenska þjóð til framtíðar að við munum í raun og veru sligast undan þeim. Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af því. Og ég er rosalega hræddur um það, virðulegi forseti, eftir að málið kom inn núna og búið var að fara fyrirvaraleiðina, að málið verði eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði einhvern tíma eða haft var eftir honum, geirneglt niður eins og það ætti að vera, og héðan í frá verði hugsanlega ekki hægt að breyta einni einustu kommu eða punkti. Ég er hræddur um það. Það hefur reyndar komið fram. Við 1. umr. komu margir hv. þingmenn og töluðu um málið af mikilli vanþekkingu, héldu að þeir væru að samþykkja frumvarpið eins og það lá fyrir vegna þess að fyrir lægju einhverjar aðrar skuldbindingar af hálfu íslenskra stjórnvalda, sem var síðan rekið ofan í þá vegna þess að það kom mjög skýrt fram hjá samninganefndinni. Ég spurði sérstaklega að því á fundi fjárlaganefndar. Samninganefndin sagði: Það var aldrei veifað framan í okkur einhverjum skuldbindingum sem var búið að taka áður af hálfu íslenskra stjórnvalda, samninganefndin gekk algerlega óbundin til þessara samninga. Það er því rangt.

Síðan verð ég að nefna það, virðulegi forseti, sem olli mér mjög miklum vonbrigðum, og ég sagði það í fjárlaganefnd að ef við tækjum málið út með þeim hætti sem við gerðum, værum við að færa miklu meiri umræðu inn í þingsal. Það var mjög dapurlegt að málið skyldi tekið út í óþökk minni hlutans án þess að ræða svo gott sem eitt einasta nefndarálit. Það komu fjögur nefndarálit frá efnahags- og skattanefnd, öll mjög góð, og ég bendi þó sérstaklega á að frá tveimur stjórnarþingmönnum kom fram nefndarálit sem einmitt varaði okkur við því að skuldsetning íslensku þjóðarinnar væri svo mikil að við værum í mikilli hættu. Þeir vöruðu við því að við gætum þurft að skera innviði og grunnstoðir velferðarkerfisins mikið niður ef hér gengi ekki allt mjög vel sem ég svo sannarlega vona.

Þessi nefndarálit, öll efnisleg umræða um málið fór aldrei fram í fjárlaganefnd. Það er mjög dapurlegt í ljósi þess að þegar fjárlaganefndin vann að fyrirvörunum og að þessu máli í allar þessar vikur í sumar stóð fjárlaganefnd sig mjög vel í því máli. Þar var mikil pólitísk samstaða og menn virtu skoðanir hver annars og voru að leita að lausnum í málinu. Ég rifja það kannski upp, virðulegi forseti, í þessum stutta ræðutíma mínum að þegar samningarnir voru kynntir 5. júní þurfti að toga allt út úr framkvæmdarvaldinu með töngum. Það stóð í upphafi til að við fengjum jafnvel ekki að sjá samningana og fullt af gögnum sem þeim viðkom. En þegar málið kom til fjárlaganefndar urðu önnur vinnubrögð, og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, stóð sig afskaplega vel í þeirri vinnu, hann stóð aldrei nokkurn tíma í vegi fyrir því þegar hver sem var í fjárlaganefnd kallaði eftir gögnum og vildi fá gögn, hann brást við um leið og óskað var eftir því og skrifaði bréf í umboði nefndarinnar sem formaður. Það hefur að sjálfsögðu miklu meira vægi þegar þingmenn óska eftir gögnum að slíkt sé gert í umboði nefndarinnar og skrifað undir það af formanni, vegna þess að ég hef rekið mig á það eftir þetta starf að þegar ég hef verið að óska eftir gögnum sem þingmaður hefur það gengið mjög brösuglega og mjög illa. Það hafði því mjög mikla vigt í sumar við að afla upplýsinga um málið að formaður fjárlaganefndar skyldi beita sér með þessum hætti. Það var því mjög slæmt, virðulegi forseti, að við skyldum ekki ná að halda sama starfi áfram við vinnslu þessa máls. Við hefðum alla vega getað reynt að fjalla um þessi mál þó ekki væri nema einhverja daga til að komast hugsanlega að einhverri niðurstöðu, enda tel ég að hv. fjárlaganefnd hafi borið skylda til þess að fjalla um þau nefndarálit sem menn óskuðu eftir frá efnahags- og skattanefnd. Það hefði bara verið sjálfsögð og eðlileg skylda nefndarinnar þó svo að þau álit fylgi að sjálfsögðu nefndaráliti meiri hlutans.