138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sperrti eyrun þegar varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, kom upp og sagði að fjárhæðin væri skýr. Þingmaðurinn nefndi nokkra þætti, til að mynda að greiðslur úr þrotabúi Landsbankans væru algerlega óvísar og svo væri búið að binda fjárhæðina í íslenskar krónur þannig að gengisáhættan væri gríðarleg.

Mig langaði að bæta aðeins í safnið og benda á að það á eftir að taka fyrir mál varðandi neyðarlögin og það eitt setur þetta mál í gríðarlega óvissu. Ég hef alltaf talið að það hefði verið eðlilegt og skynsamlegt að bíða eftir niðurstöðu í þeim málum áður en við bindum þjóðina í þessum efnum. Ég held að menn séu almennt sammála því. Svo mætti líka benda á að í fyrirvörum sem Alþingi setti í lok ágústmánaðar var einfaldlega settur sá fyrirvari þar sem átti að láta reyna á það hvort útgreiðslur úr þrotabúinu ættu að fara fyrst til íslenska innstæðutryggingarsjóðsins eða skiptast jafnt á milli Íslendinga, Breta og Hollendinga. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir.

Og það er hárrétt og ég vil taka undir með þingmanni þegar hann nefnir að óvissu upp á hundruð milljarða er ekki með nokkru einasta móti hægt að túlka á þann hátt að fjárhæðin sé skýr og ákveðin. Þegar við erum ræðum um slíkar fjárhæðir er það einfaldlega þannig að það brýtur í bága við 40. gr. stjórnarskrárinnar og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því efni.