138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom mjög vel inn á það í ræðu minni áðan að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig við kláruðum þetta mál í fjárlaganefnd. Ég tel það bara eðlileg vinnubrögð þegar fjárlaganefnd óskar eftir umsögn frá efnahags- og skattanefnd að um það sé fjallað í nefndinni. (Gripið fram í.) Það er bara mín skoðun að ef nefndin kallar eftir gögnum á að ræða þau. En eins og ég sagði áðan líka fylgja þessi gögn með nefndarálitinu en ég hefði haldið eðlilegra, og ég tel það bara mjög skynsamlegt, að efnisleg umræða hefði farið fram í fjárlaganefnd um þessi álit frá efnahags- og skattanefnd sem voru reyndar fjögur. Nefndin tók á móti nokkrum gestum en við notuðum aldrei neinn tíma í að ræða efnislega um málið eftir að við höfðum tekið á móti þeim gestum sem komu. Það hefðu verið eðlilegt að gera það og taka til fyrirmyndar þau vinnubrögð sem voru viðhöfð síðastliðið sumar.