138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef setið hér í nokkra tugi klukkutíma og hlustað á ræður í 2. umr. um Icesave-málið og verð að lýsa vonbrigðum með það að fátt hefur bæst við frá því að við hófum umræðuna. Það hefur líka valdið mér miklum vonbrigðum að ágætur liðsmaður, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sem barðist mjög fyrir því með mér og fleirum að reyna að ná sátt hér í sumar og var alltaf talsmaður þess að reyna að fara málefnalega í gegnum málin, skuli vera dottinn í þann pytt að vera kominn hér á stundaskrá í andsvör meira og minna eftir einhverjum lærðum spurningum og málinu til lítils gagns. Ég harma það.

Mig langar til að fara aðeins yfir aðdragandann. Hér var rætt um að málinu hefði verið kippt út úr nefndinni en þegar málið kom út úr þessari seinni lotu tjáðu stjórnarandstöðuflokkarnir sig mjög skarpt um að ekki kæmi til greina að koma nálægt því. Þess vegna taldi ég enga ástæðu til að eyða miklum tíma í að leita eftir sáttum þegar menn höfðu fyrir fram tekið mjög harða afstöðu. Það voru líka mikil vonbrigði, því að full ástæða hefði verið til að láta reyna á það hvort við gætum aftur komið málinu heilu og óskemmdu í gegn og vegna þess að eitt af því sem við lögðum upp með var að búið væri að setja fyrirvarana, sem við settum hér á sínum tíma, inn í samninginn til að tryggja að þeir væru öruggir og stæðust í framhaldinu, eins og beðið var um með umræðum í byrjun.

Af því að við erum að ræða lögfræðiálitin langar mig til að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hér í lokin hvort hann geti ekki staðfest að þrír af þeim fjórum lögfræðingum sem kallaðir voru inn hafi afdráttarlaust sagt að þessir samningar væru ekki brot á stjórnarskrá (Forseti hringir.) og ekki væri tilefni til greinargerðar. (Gripið fram í.)