138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fjárlaganefnd fékk á sinn fund fyrir tilstuðlan minni hlutans Lee nokkurn Buchheit sem er einhver fremsti sérfræðingur í samningum milli þjóða og hefur tekið að sér að semja fyrir þjóðir sem hafa verið í vandræðum. Hann sagði: Það gengur ekki að samþykkja þetta fyrr en þið vitið nákvæmlega hverjar heimturnar verða úr þrotabúi Landsbankans. Það eru gögn sem við í Framsóknarflokknum höfum kallað eftir frá upphafi málsins. Þau skipta gríðarlega miklu máli.

Í annan stað skiptir miklu máli að menn velti fyrir sér þeirri gríðarlegu gengisáhættu sem við erum að taka á okkur. Við skulum hafa í huga að áhættan í öllu málinu er alltaf Íslendinga. Bretar og Hollendingar eru með svo hagstæða samninga að þeir ætla sér ekki að taka nokkra áhættu, áhættan verður alltaf Íslendingum í óhag.

Í annan stað vil ég nefna að það sem skiptir gríðarlega miklu máli er að þjóðin átti sig á því að henni er alltaf betur borgið ef hún samþykkir ekki Icesave-samningana. Þá fara ekki skatttekjur 80.000 einstaklinga næstu sjö árin í vaxtagreiðslur af Icesave. Þá þurfa líka Bretar og Hollendingar að fara fyrir íslenskra dómstóla til að fá skorið úr um greiðsluskyldu okkar. Síðast en ekki síst, ef við hefðum sýnt smádug (Forseti hringir.) og kynnt málið erlendis hefðum við getað samið á jafnréttisgrundvelli.