138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að nú hafi myndast dálítið sérstakt andrúmsloft í málinu. Ég tel nefnilega að þjóðir heimsins séu farnar að átta sig á því að það gengur ekki að Íslendingar verði látnir taka ábyrgð á galla í innstæðutryggingarkerfi Evrópu. Auðvitað eigum við að leita til manna eins og Lees Buchheits. Hann hefur í tvígang, að því er ég best veit, boðið fram aðstoð sína en stjórnvöld hafa í hvorugt skiptið viljað þiggja aðstoð hans. Og þegar við ræðum þær fjárhæðir sem íslenska ríkið vildi spara sér í sérfræðikostnaði tel ég að það séu einhver hrikalegustu mistök sem stjórnvöld hafa gert.

Við vitum að Bretar og Hollendingar eyddu nokkrum milljörðum, eða svo er mér sagt, í að fá sína allra færustu sérfræðinga til að leggjast yfir málið. Þeir sinntu líka vinnu sinni, enda eru samningarnir algerlega einhliða. Ég er þeirrar skoðunar að sú umræða sem farið hefur fram núna hafi vakið þjóðina af værum svefni. Það sýnir sig fyrst og fremst í því að fjöldi undirskrifta inni á vef Indefence-samtakanna stighækkar dag frá degi. Fólk er líka að átta sig á því að allar þær skattahækkanir og niðurskurður eru að miklu leyti til komin vegna þess að gríðarlega háar fjárhæðir vegna Icesave munu lenda á þjóðinni og það gerist strax í dag og ekki bara það, það gerðist í rauninni (Forseti hringir.) strax 1. janúar sl.