138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ágæta ræðu. Það hefur komið ítrekað fram hér í andsvörum stjórnarliða og kannski aðallega í ræðum þeirra undir liðnum um fundarstjórn forseta, að þeir hafa haldið því fram að ekkert nýtt komi fram. En ég gat ekki betur heyrt en að þingmaðurinn nefndi hlut sem hefur lítið verið ræddur hér í þessum ræðustól og ekkert verið ræddur í fjárlaganefnd þar sem þetta er eitt af þeim málum sem komið hafa upp eftir að málið var tekið úr nefnd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim skoðunum með mér að það sé nauðsynlegt að taka þetta mál úr umræðunni í þinginu og í nefnd þar sem komið hafa fram umtalsverðir og nýir hlutir á síðustu vikum og dögum. Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt og miklu gáfulegra að hafa efnislega umræðu um þessi mál í nefndum en að við séum að reyna að gera það hér í ræðustól þar sem hver kemur upp á fætur öðrum og þylur upp einhverja pólitíska afstöðu. Hvert einasta mál verður með karpstíl. Það er mjög erfitt fyrir þá sem þurfa að hlusta á þetta að greina aðalatriðin frá öllum þeim bunugangi sem hér er.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún deili þeim skoðunum með mér að það væri eðlilegast að taka þetta mál til hliðar. Það hefur auk þess komið fram að það er ekkert sérstakt sem kallar á að við ljúkum þessu í dag eða morgun eða á næstu dögum. Við þurfum að fara miklu betur yfir þetta mál, skoða það frá grunni. Ég hefði áhuga á að ræða það við hv. þingmann hvort (Forseti hringir.) æskilegast væri að semja upp á nýtt (Forseti hringir.) eða hvort hægt sé að hnýta við þennan (Forseti hringir.) samning.