138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er skoðun mín að það ætti að taka þetta mál úr þeirri umræðu sem það er í hér og fara með það aftur í fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd og skoða málið frekar. Það á líka að taka, af því við erum að tala um ríkisábyrgð á Icesave sem er arfur úr gamla Landsbankanum, það skuldabréf sem Nýi Landsbankinn gaf út inn í gamla Landsbankann upp á 260 milljarða. Það á að ræða það og skoða hver staðan verður og hvert greiðsluhlutfall okkar verður á árunum 2014–2018. Ég held að það skipti máli og sé mikilvægt, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson.

Við sömdum í sumar, eins og margoft hefur komið fram þar sem Alþingi setti efnahagslega og lagalega fyrirvara sem samþykktir voru hér. Stjórnarherrarnir sögðu þá að þeir væru fínir og rúmuðust innan samninganna. Við bundum við það vonir að hlutirnir yrðu með þeim hætti, svo varð ekki. Við fáum til baka annað frumvarp sem er að mati stjórnarandstöðunnar í það minnsta ekki ásættanlegt. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég hefði haldið að það væri skynsamlegast að fella þessa samninga, fella frumvarpið, segja nei við þessum samningum og hefja umræðuna á nýjan leik. Sumir segja að það sé ekki hægt og það væri þá ágætt að vita af hverju það er ekki hægt. Enn þá hefur enginn svarað því. Menn verða að koma með rök fyrir því þegar þeir segja að eitthvað sé ómögulegt en ekki segja af því bara.