138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þar sem hún hefur látið í ljós áhyggjur af því hvað muni verða um íslenska þjóð ef við göngum til þessara samninga, hvort hún hafi ekki áhyggjur af viðvörunum Seðlabankans til forsætisráðherra, sem bárust með bréfi 9. október sl. þar sem segir að lánshæfismat Íslands muni að öllum líkindum lækka, náist ekki sátt í Icesave-deilunni og að endurskoðun efnahagsáætlunarinnar muni tefjast. Þar er líka bent á að stofnfjárfestar kunni að verða tilneyddir til að selja eignir sínar um leið og færi gefst vegna þess að þeim sé ekki heimilt að fjárfesta í lágt metnum eignum og lægra lánshæfismat gæti þannig skapað hættu á óstöðugleika þegar höft verða afnumin. Því er talið að það gæti orðið ráðlegt að fresta a.m.k. afnámi hafta á tiltekna eignaflokka. Síðan er varað við því að þetta muni geta torveldað endurfjármögnun íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga og það muni verða erfiðara fyrir fjármálastofnanir að ná undir sig fótum á ný og sama muni eiga við um aðgengi ríkissjóðs að erlendum fjármálamörkuðum.

Nú spyr ég hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur: Hefur hún ekki áhyggjur af þessu? Og í framhaldi af því þegar hún segir: Getum við ekki bara fellt þennan samning, það hlýtur að vera hægt? — Vissulega hlýtur það að vera tæknilega framkvæmanlegt að fella samninginn, en ég spyr á móti: Er það áhættunnar virði að mati hv. þingmanns?