138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er nú í sjálfu sér fagnaðarefni að fá tækifæri til að halda ræðu eftir þau orðaskipti sem áttu sér stað milli hv. þingmanna Gunnars Braga Sveinssonar og Björns Vals Gíslasonar. Það er ekki í fyrsta skipti sem Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir því að vafi leikur á því hvort lagafrumvarp gangi í gegn ákvæðum stjórnarskrár eða ekki. Það er ekki í fyrsta sinn sem það er viðfangsefni okkar hér á þingi. Það er alveg klárt að þetta viðfangsefni verðum við að taka alvarlega, ekki taka með léttúð. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það.

Ég ætla ekki að skera úr um þetta núna eins og mér heyrðist hv. þm. Björn Valur Gíslason kalla hér fram í þegar ég steig í ræðustólinn, eða hvort það var hv. þm. Guðbjartur Hannesson, en mín skoðun er klár í þessu. Þarna er veruleg hætta á ferðinni. (Gripið fram í.)

En það sem ég vildi fjalla um er hvaða aðferð við notum til þess að taka ákvörðun, því að við verðum að taka ákvörðun, við verðum að taka afstöðu sem þingmenn til spurningar af þessu tagi og við verðum að rökstyðja afstöðu af þessu tagi. Ég legg mikla áherslu á það síðara, að við verðum að rökstyðja. Við verðum að rökstyðja þá skoðun sem við komumst að. Það skiptir máli fyrir okkur sem þingmenn að komast að rökstuddri niðurstöðu í mikilvægum málum sem fyrir okkur liggja, ekki síst þegar stjórnarskráin á í hlut.

Með fullri virðingu fyrir hv. þm. Birni Vali Gíslasyni og raunar hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, sem áður hefur látið orð falla í þessa veru, finnst mér það ekki rökstudd niðurstaða að segja: Á fund minn komu lagaprófessorar sem sögðu að þetta væri svona. Þess vegna segi ég: Það er enginn vafi, þetta er bara svona.

Hvar er rökstuðningurinn? Hvaða rökstuðning höfum við fyrir þessari niðurstöðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar? Hvernig rökstyður hv. þm. Björn Valur Gíslason fyrir sjálfum sér, fyrir okkur þingmönnum, fyrir kjósendum sínum, fyrir þeim sem lesa þetta frumvarp eða þessi lög í framtíðinni þá niðurstöðu að þetta ákvæði standist ekki á við stjórnarskrá?

Það liggur fyrir rökstuðningur fyrir gagnstæðri niðurstöðu, rökstuðningur sem hefur komið fram í blöðum, í greinargerð sem liggur fyrir fjárlaganefnd. Það liggur fyrir rökstuðningur, skriflegur rökstuðningur. Hvar eru gagnrökin? Hvar eru þau? Hvar standa þau? Hvar get ég lesið þau? Hvar getum við sem ekki sátum þennan fund í fjárlaganefnd fengið upplýsingar um það hvernig þessir ágætu lagaprófessorar rökstuddu niðurstöðuna? Ég get alveg fallist á að við komumst aldrei endanlega að einhverjum sannleika í þessum málum.

Eins og fram hefur komið í umræðu er það auðvitað Hæstiréttur sem sker á endanum úr um stjórnarskrárgildi laga ef á það reynir, ekki Alþingi. En þeir þingmenn sem taka afstöðu til spurninga af þessu tagi um stjórnarskrárgildi laga verða að segja meira en bara já eða nei. Þeir eiga ekki að svara með eins atkvæðis orðum. Þeir eiga að svara með rökstuðningi.

Þegar þessi lög verða túlkuð í framtíðinni skiptir rökstuðningurinn máli. Þá verður það rökstuðningur manna í nefndaráliti, í greinargerð, í ræðum í þinginu, sem menn munu skoða til þess að átta sig á því hvort menn hafi komist að niðurstöðu á grundvelli gildra röksemda eða ekki. Hvar eru rökin?

Það sama má segja um svo margt annað í þessu máli. Við í stjórnarandstöðunni höfum haldið uppi öflugum málflutningi undanfarna daga. Við höfum vakið máls á ótal atriðum sem vekja vafa, vekja ótta og ugg í sambandi við þetta mál. Okkur hefur verið mætt hér af stjórnarliðum með þögninni einni. Stundum með frammíköllum, stundum með flissi, stundum með algjörri fjarveru, en aldrei með röksemdum. Við höfum verið hérna klukkustund eftir klukkustund, dag eftir dag, og kallað eftir röksemdum fyrir því hvers vegna þingmenn ætla að styðja þetta frumvarp. Hvar eru þau rök? Ég lýsi eftir þeim rökum.

Og ég lýsi eftir því að hv. þingmenn Vinstri grænna taki til máls í þessari umræðu og útskýri fyrir okkur þingmönnum, fyrir kjósendum sínum, af hverju þeir styðja þetta frumvarp. Það getur vel verið að þeir hafi gild rök fyrir máli sínu, við höfum bara ekki heyrt þau.

Við heyrðum örla á einhverri skoðun hjá hv. þm. Atla Gíslasyni hér áðan. Ég lýsi eftir því að hv. þm. Atli Gíslason komi hér í ræðustól og skýri hvernig hann ætlar að komast að niðurstöðu í þessu máli. Hvernig ætlar hv. þm. Atli Gíslason að greiða atkvæði og hvers vegna? Ég segi þetta ekki af tilviljun vegna þess að ég veit að hv. þm. Atli Gíslason hefur margt fram að færa í þingumræðum þegar hann beitir sér. Hann hefur lögfræðilega þekkingu, hann hefur pólitíska reynslu, hann hefur margt fram að færa. Þess vegna mundi ég gjarnan vilja heyra hv. þm. Atla Gíslason útskýra það af hverju hann telur sig geta stutt þetta frumvarp þar sem fyrirvararnir frá því í sumar eru ónýtir eða lítils virði. Hv. þm. Atli Gíslason sagði í þingræðu í sumar að það væru einmitt fyrirvararnir sem gerðu það að verkum að hann hefði snúist til stuðnings við frumvarpið eins og það lá fyrir þá. Hv. þm. Atli Gíslason skuldar okkur því skýringu hvers vegna hann ætlar að styðja þetta frumvarp ef hann ætlar að gera það, við vitum það ekki alveg fyrir víst. Hann þarf þá líka, finnst mér, að sýna fram á að þeir fyrirvarar sem hann studdi og lagði svona mikið upp úr í sumar séu enn fyrir hendi. Það þarf að sýna fram á það. Það þarf að rökstyðja það.

Við stjórnarandstæðingar höfum lagt mikið á okkur til að rökstyðja okkar mál en við höfum ekki fengið gagnrökin. Við höfum ekki heyrt þau. Ég veit ekki hvernig hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ætlar að greiða atkvæði í þessu máli. Ég hef ekki heyrt það úr þessum stóli hvernig hann ætlar að greiða atkvæði í þessu máli en hann er í sömu stöðu og hv. þm. Atli Gíslason. Hann sagði opinberlega í sumar að það væru fyrirvararnir, einmitt strangir og öflugir fyrirvarar, sem gerðu það að verkum að hann gæti stutt málið. Telur hann að þessir ströngu og öflugu fyrirvarar séu enn þá fyrir hendi? Ef svo er, bið ég hann að rökstyðja það af því að fjöldamargir þingmenn hafa komið hér upp í ræðum undanfarna daga til þess að sýna fram á að þessir fyrirvarar eru ýmist horfnir eða lítils virði eins og staðan er í dag. Fyrirvararnir eru einskis virði í þeim tilvikum þar sem þeir skiptu mestu máli. Einmitt í þeim tilvikum þar sem hagþróun hefur verið óhagstæð á Íslandi skipta fyrirvararnir ekki lengur máli, ekki eins og þeir áttu að gera eins og þeir voru settir fram í sumar.

Ég hef lengi beðið eftir því, hæstv. forseti, að hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson tjái sig í þessari umræðu í þinginu. Fyrir liggur mjög gott nefndarálit frá þeim úr efnahags- og skattanefnd. Ég er ekki alltaf sammála hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Ögmundi Jónassyni, alls ekki. En mér finnst það framlag þeirra til málsins sem kemur fram í áliti þeirra úr efnahags- og skattanefnd vera málefnalegt og vel unnið og ég sakna þess að hafa ekki heyrt til þeirra í þessari umræðu.

Síðan varðandi þá hv. þingmenn Vinstri grænna sem hafa kannski aldrei haft efasemdir um (Gripið fram í.) að það ætti að samþykkja Icesave-samningana, höfðu jafnvel ekki efasemdir í júní þegar engir fyrirvarar voru og enginn var farinn að ræða um fyrirvara, þeir ætluðu bara að samþykkja málið eins og það kom af kúnni, eins og það kom frá hæstv. fjármálaráðherra, fyrirvaralaust, skilyrðislaust, þeir skulda okkur líka skýringar. Þeir skulda okkur skýringar á því hvers vegna þeir eru tilbúnir til þess að styðja frumvarp sem fyrirsjáanlega mun leiða gríðarlegar skuldbindingar yfir þjóðina án þess, og það eru allir sammála um hygg ég, að fyrir liggi nokkrar skýrar lagalegar skuldbindingar á íslenska ríkið eða íslenskan almenning.