138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og þess vegna vil ég ekki draga þá ályktun að það sé alveg útséð með að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna taki efnislegan þátt í þessari umræðu og komi fram með sín sjónarmið og rökstuðning í þessu máli. Ég vil ekki afskrifa það eða útiloka á þessu stigi. Ég tel að enn sé von í því sambandi (Forseti hringir.) og ég veit að í hópi þingmanna stjórnarflokkanna eru ýmsir hv. þingmenn sem geta haft ýmislegt til málanna að leggja þegar þeir vilja svo við hafa, þannig að ég vil ekki útiloka það fyrir fram.

Hitt er svo annað mál að við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson getum verið sammála um að það eru veigamiklir þættir þarna sem þurfa að fá ítarlegri meðferð í nefndum. Hann nefndi stjórnarskrárþáttinn sem auðvitað — við skulum líka vera jákvæðir og segja að forusta hv. fjárlaganefndar hafi hafið umræðu um hinn stjórnskipulega þátt og ber að fagna því þótt seint sé. Það ber að fagna því að menn stigu þó það skref að kalla til þessa fundar á þriðjudaginn. Ég vona bara að hv. forusta fjárlaganefndar fylgi því máli eftir með því að leita eftir skriflegum álitsgerðum og fari efnislega yfir þetta. Hún komi þá í þingið með rökstutt álit þar sem sú niðurstaða sem þeir komast að verður studd með einhverjum gildum rökum. Ég vona bara að málin fari í þann farveg á þeim vettvangi.

Varðandi hina efnahagslegu þætti, sem eru auðvitað veigamiklir líka, er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það hafa mjög margir nýir þættir komið fram. Nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar ber þess vitni að ekki var farið ofan í eða í efnislega umræðu um mjög veigamikla þætti í því sambandi. Ég nefni gjaldeyris- og gengismálin, ég nefni vaxtamálin, ég nefni gildi hinna svokölluðu efnahagslegu fyrirvara. (Forseti hringir.) Það eru heilmiklar eyður þarna sem þarf að fylla í og (Forseti hringir.) auðvitað þarf að bæta því við miðað (Forseti hringir.) við nýjar upplýsingar sem komið hafa fram á síðustu dögum.