138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og langar til að halda aðeins áfram á þessari braut. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telur að það sé líklegt að enn sé hægt að koma fyrir nýjum vörnum, breyta viðaukasamningnum með því að taka málin fyrir aftur í nefndum. Telur hann að það sé mögulegt? Ég hef ekki sjálfur heyrt slíks getið af stjórnarliðum hér í pontu hvort þeir hafi gefið möguleika á því, en mig langar að heyra álit þingmannsins.

Til að mynda höfum við framsóknarmenn bent á að það væri mjög æskilegt að fengið yrði álit breskrar lögmannsstofu á samningnum ef þetta frumvarp verður að lögum og fær staðfestingu forseta, sem ég vona reyndar ekki. Þá er lögsagan öll komin undir breskum rétt og ég held að það væri sérkennilegt ef við hefðum ekki á einhverjum tímapunkti lagt málið með formlegum hætti fyrir virta breska lögmannsstofu þar sem væri sérfræðingur í breskum rétti. Telur þingmaðurinn ekki að þetta væri hægt og æskilegt? Telur hann ekki að stjórnarliðar mundu vilja taka þetta mál upp með þessum hætti í nefndunum?

Þá má líka bæta því við að ef þetta mál heldur áfram á þessari leið og verður tekið úr þinginu er kannski annar vinkill á málinu sem væri áhugavert að heyra álit þingmannsins á, þ.e. hvort þetta mál eigi að fara til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það safnast sífellt undirskriftir á undirskriftalistann á indefence.is, ég held að það sé komið vel á þriðja tug þúsunda undirskrifta. (Forseti hringir.) Mig langar að heyra álit þingmannsins á því hvort (Forseti hringir.) hann telur að þetta mál (Forseti hringir.) geti hugsanlega farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.