138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru margar spurningar og allar gildar. Ég hef áður tjáð mig um það hér í umræðum að ég telji rétt að það sé skoðað sérstaklega, og ég sé ekki að það hafi verið gert á fyrri stigum málsins, hvaða áhrif það hefur ef fyrirvararnir, eða leifarnar af fyrirvörunum frá því í sumar, eru settir úr lagatextanum inn í viðaukasamningana sem lúta lögsögu enskra dómstóla og verða túlkaðir eftir enskum lögum. Ég held og hef áhyggjur af því að það geti haft töluvert mikil áhrif á framvindu mála en ég treysti mér ekki til að segja hver þau áhrif eru. En ég er alveg sannfærður um að það er æskilegt að sá þáttur sé skoðaður því að ég hef ekki rekist á gögn sem benda til þess að málin hafi verið skoðuð út frá því sjónarhorni, hvorki í greinargerð með frumvarpinu eins og það var lagt hér fram, né í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar.

Þetta er því töluvert mikilvæg spurning vegna þess að eins og hv. þingmaður veit er enskur réttur að mörgu leyti frábrugðinn þeim íslenska og dómvenjur og dómfordæmi hafa annað og meira vægi í enskum rétti en íslenskum. Þess vegna er fyrir okkur meiri óvissa fólgin í þessari breytingu og ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt áður en gengið er frá málinu að sá þáttur sé skoðaður.

Ég næ ekki að koma inn á fleiri þætti en get huggað hv. þingmann með því að ég hef trúlega tækifæri til að tjá mig hér síðar í kvöld. Ég vildi hins vegar bara nefna út af spurningunni um þjóðaratkvæðagreiðsluna, eins og ég nefndi hér í andsvari við hv. þm. Þór Saari fyrr í umræðunni, að sá forseti sem undirritaði lögin frá 28. ágúst með sérstakri yfirlýsingu (Forseti hringir.) mun eiga bágt með að undirrita þau lög (Forseti hringir.) sem samþykkt verða á grundvelli þessa frumvarps.