138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með þingmanninum, ég held að það sé einboðið að menn taki þessi atriði fyrir í fjárlaganefnd og reyni að knýja á um svör. Það er til að mynda alveg ljóst af viðveru stjórnarþingmanna sem hafa ekki tjáð sig í málinu — og það er merkilegt hversu hljóðir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið í þessu máli fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra sem í rauninni einn hefur talað, ég held að aðrir hafi ekki sett sig á mælendaskrá í þessu máli — að ekki erum við að fá fram skoðanir og rökstuðning stjórnarþingmanna fyrir því að við eigum ekki að fara varlega í þessu máli þegar svona alvarlegar tölur eru að koma fram. Ég vil því taka undir með þingmanninum að þennan þátt verður að fara sérstaklega vel yfir.

Ég vil spyrja hv. þingmann að öðru sem tengist m.a. orðaskiptum okkar í gær, ráðherra í ríkisstjórn við þingmenn, og síðan í dag. Í gær sagði hæstv. fjármálaráðherra að aðilar innan Evrópusambandsins hefðu haft uppi grímulausar hótanir um að láta Íslendinga hafa verra af, eins og hann orðaði það, ef Íslendingar drifu sig ekki í að klára Icesave. Við höfum heyrt þennan söng mjög oft. Norðurlandaþjóðunum var kennt um það um tíma og síðan ekki, síðan kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og sagði að það væri Norðurlandaþjóðunum að kenna. Það er eins og ríkisstjórnin hafi aldrei dug í sér til að skrifa þessum aðilum, tala við þessa aðila og halda á lofti íslenskum hagsmunum og sjónarmiðum til að fá skilning þessara þjóða á því af hverju við erum að reyna að þráast við að samþykkja þennan hörmulega samning. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Hvert er mat hans á því, ef við fáum og nýtum það tækifæri sem þingsköpin veita okkur, okkar lýðræðislega rétt sem þingsköpin veita okkur til að halda uppi málefnalegri umræðu um málið, hvaða hagsmunum telur hv. þingmaður vera ógnað ef við tökum þann tíma sem við þurfum í þetta mál til að (Forseti hringir.) fara betur yfir það og til þess að gæta íslenskra hagsmuna?