138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er einfalt. Ef stjórnarþingmenn, og þar með talið ráðherrar, hafa ekki úthald og þrek í það að vera hér fram eftir kvöldi og fram eftir nóttu en greiða engu að síður atkvæði með kvöldfundum á forseti einfaldlega að fresta fundi því að með þessu móti er ekki verið að liðka fyrir umræðu eða framgangi málsins.

Það er líka einkennilegt, og ég vil sérstaklega draga það fram, að fyrir nokkrum dögum, ætli það sé ekki svona vika, tíu dagar síðan, spurði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hæstv. forsætisráðherra spurninga. Hæstv. forsætisráðherra kom síðan í púlt þegar hv. þingmaður var að bregða sér hér á milli herbergja til þess að komast í sæti sitt og þá sagði hæstv. forsætisráðherra að hún gæti ekki svarað þingmanninum af því að hann væri ekki í salnum. Þess vegna dugar það ekkert fyrir mig í þessu máli að forseti segi að þeir séu í einhverjum hliðarsölum hér eða frammi í kaffi eða eitthvað slíkt. Þeir eiga að vera hér í salnum, ekki síst ef þeir hafa sjálfir lýst því yfir að menn eigi að vera í salnum, til þess að við getum einfaldlega krafist svara og fengið þau.