138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Fjöldi óháðra aðila, aðila sem ekki eru á framfæri ríkisstjórnarinnar, fá ekki greitt frá henni og eru ekki að vinna fyrir hana sérstök verkefni, hefur bent á að það verði mjög erfitt, margir telja algjörlega ómögulegt, að standa undir þessum skuldbindingum, sérstaklega er lýtur að því að afla nægs erlends gjaldeyris. En hvað gerir ríkisstjórnin? Hún felur Seðlabanka Íslands að leggja mat á þetta sem, eins og ég hef bent á áður, er svipað og ef Landsbanki Íslands hefði á sínum tíma falið greiningardeild sinni að leggja mat á það hvort bankinn færi á hausinn við að taka lán sem hann væri þegar búinn að skrifa undir. Jafnfráleitt er að ætla Seðlabankanum að framkvæma þessa yfirferð, enda hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands farið yfir álitsgerð Seðlabankans og gagnrýnt þar fjölmörg atriði. Aðrir hafa síðan þá farið í gegnum þetta og bent á enn fleiri vankanta á þessari seðlabankagreinargerð sem ég er dálítið hræddur um að verði fræg í íslenskri hagsögu.