138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:25]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er það svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn byggir ekki á íslenskum forsendum. Íslendingar hafa alltaf þurft að byggja á íslenskum forsendum til að ná árangri og það gerir þessi sjóður ekki. Þessi sjóður er viðskiptafyrirtæki með eignaraðild margra þjóða sem leggja í púkkið til að hafa áhrif og skila árangri fyrir sjálfar sig. Bæði Bretar og Hollendingar eru hluthafar í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Svo erum við neydd til að leita til þessa sjóðs sem þjónar ekki íslenskum hagsmunum. Hann er þekktur fyrir það um allan heim að ganga að þjóðum sem lenda í erfiðleikum en verja auðmennina, ofurfjárfestana, ríku löndin og nýlenduþjóðirnar gömlu gegn öðrum. Það er málið, virðulegi forseti og við sem erum maríuerlan í Atlantshafinu verðum sjálf að hafa rænu til að berjast og fljúga eins og okkur hentar. Við þurfum engin erlend skilaboð í þeim efnum, ekki nokkur. Við höfum þá reynslu og það þrek sem til þarf og ég held að það sé rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir. Það er stór spurning hvort þarna sé staðið skynsamlega að málum, stór spurning.

Því miður er það svo að við stjórnvölinn á Íslandi í dag eru ekki baráttumenn. Við getum nefnt marga baráttumenn fyrri tíðar sem hefðu betur staðið við stýrið nú svo ekki sé talað um nútímann, til að mynda fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson. Hann kann leikbrögðin, hann kann baráttuaðferðirnar, hann kunni að skila árangri þó svo að enginn sé hafinn yfir það að (Forseti hringir.) gera mistök.