138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:30]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að gæta sanngirni er til að mynda mjög auðvelt að nefna nafn Ólafs Jóhannessonar, fyrrum forsætisráðherra, mann sem hefði aldrei látið erlenda aðila kúga sig, (VigH: Heyr, heyr.) aldrei. Ólafur Jóhannesson var þekktur fyrir að standa fast í fæturna við að vernda hagsmuni Íslands. Það er gott dæmi og mætti nefna marga fleiri góða menn.

Þar sem það liggur fyrir að við náum engri sátt í þessum málum og jafnvægið er til og frá, það munar mjög litlu á hvorn veginn sem það stendur, þá eigum við í stöðunni, hv. þingmaður, að róa okkur aðeins niður og fara enn einn hringinn. Jörðin snýst með á um 1670 km/klst. og við þurfum að þola að taka eina lotu enn, kannski tvær og kannski þrjár. (Forseti hringir.) Það er þannig …

(Forseti (RR): Tíminn er búinn, hv. þingmaður, klukkan sýnir rangan tíma.)

Þá bið ég forseta að segja mér það því að ég tala nákvæmlega eftir klukkunni. Ég þarf að klára það sem ég þarf að koma til skila í svörum mínum.

(Forseti (RR): Klukkan hefur ekkert gengið, hv. þingmaður, fyrr en forseti …)

Þá þarf ég bara að fá einhvern tíma til þess að svara.

(Forseti (RR): Þingmaðurinn hefur haft tvær mínútur til að svara.)

Þingmenn tala eftir klukkunni og ef klukkan er röng og vitlaus (Forseti hringir.) hlýtur forseti að segja frá því en ekki sitja bara á stól sínum og rugga sér.