138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að klukkan sé rétt hjá mér. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir barátturæðu hans hér. Þjóðin þarf á svona fólki að halda á þessum tímum, fólki með eldmóð, fólki sem trúir á íslensku þjóðina og ræðumönnum sem trúa á það sem hér er, en ekki ræðum eins og hæstv. forsætisráðherra hefur flutt um langa hríð. Hún spáir hér köldum frostavetri ef Icesave-samningarnir verða ekki samþykktir, er sífellt með hótanir og stundar hótanastjórnmál. Þakka þér kærlega fyrir ræðuna.

Mig langar aðeins að fara yfir það sem ég ræddi í dag og spyrja þingmanninn að því hvað honum finnst um að kostnaður við aðildarumsókn að Evrópusambandinu er a.m.k. eitt þúsund milljónir, einn milljarður. Íslendingar eyddu sömu upphæð í umsókn að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, eitt þúsund milljónum. Þær eru farnar út um gluggann enda vitum við hvar hæstv. þáverandi utanríkisráðherra sat þegar hrunið varð í fyrra. Það var ekki verið að gæta að því hvað var að gerast hér heima á Íslandi enda var sú för mikil sneypuför.

Það kom fram í blöðum í morgun að eingöngu það að vera í ESB kosti 20 milljarða á ári. Hvar ætlar þjóðin og ríkisstjórnin að finna þessa peninga, göngum við þarna inn? Mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi þessara upplýsinga og í samhengi við þetta: Hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin ekki eytt nokkrum aurum í að kynna stöðu okkar fyrir umheiminum? Hvað er að og hví er ekki verið að því nú?