138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:34]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru svo ótrúlega margt sem ekki er á hreinu, til að mynda kostnaðurinn við þátttöku í Evrópubandalaginu, en menn hafa spáð í þær tölur sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vék að. Það virðist vera feimnismál að tala um kostnaðinn af Schengen, hvað við græðum á því og hvað við töpum á því. Það er sannfæring mín að við stórtöpum á því en það skulum við ekki ræða núna.

Við höfum ekki náð þeirri sátt sem þarf og eins og staðan er er ekki hægt að ganga til slíkrar samningagerðar nema við séum neydd með valdi, beinu vopnavaldi. Það er ekki hægt að ganga undir slíkt nema við höfum ákveðna sátt um það og samstöðu. Það sem þarf að gera í stöðunni er að fara ofan í saumana á öllum þessum þáttum, tengingunni við stjórnarskrána, tengingunni við þau nágrannaríki, nágrannasambönd sem við höfum verið að vinna með fjær og nær. Það þarf að sækja til Evrópubandalagsins beint, til NATO, til Norðurlandaráðs. Við eigum að kæra Breta og Hollendinga fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir stríðsinnrás inn í Ísland sem var gerð til þess að rugga bátnum og taka af okkur völdin, taka af okkur fjármagnslegan rétt til að stjórna íslensku samfélagi. Þetta þurfum við að gera.

Kynningin út á við hefur farið algjörlega úr böndunum. Ég hef nefnt það í ræðum mínum að það sé kannski vegna þess að ríkisstjórnin ber því við að hún tali ekki útlensku. Það er bara ekki boðlegt í nútímaþjóðfélagi að menn geti ekki talað útlensku (Forseti hringir.) því að þá ráða þeir sér túlka, (Forseti hringir.) en það gleymdist.