138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir svar hans. Þessi kynning virðist alveg hafa farið fram hjá ríkisstjórninni og svo virðist á einhvern hátt vera að það sé ekki vilji til þess að kynna stöðu okkar á alþjóðavettvangi. Hæstv. utanríkisráðherra hefur nú samt verið óþreytandi við að flengjast á milli Evrópuríkja og kynna aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er sama hvar gripið er niður, hann hefur farið til Möltu, Spánar — ég man ekki hvað þetta allt saman er. Það var talin vera ægilega mikil gulrót að Svíar mundu leiða þessar aðildarviðræður okkar og nú hefur komið í ljós að það er öllu slegið á frest fram í mars og enn bætist við kostnaðinn eftir því sem lengra er farið í ferlinu.

Þingmaðurinn kom inn á það að við ættum í stríði. Vissulega eigum við í fjármálastríði án vopna, ég hef sagt það áður hér á Alþingi og skrifað greinar um það í blöð. Við urðum fyrir árás frá hinum svokölluðu vinaþjóðum og líklega má rekja upphaf þessarar árásar til þess er við lögleiddum EES-samninginn. Sú gallaða reglugerð sem við þurftum að taka upp í lög hefur leitt til þess að hér varð algjört fjármálahrun og einnig kom til sú krafa Evrópska efnahagssvæðisins um frjálst fjármagn, sem er einn þáttur fjórfrelsisins, að hér skyldu bankar einkavæddir og Seðlabankinn var notaður til þrautavara.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi lesið seinasta fylgiskjalið í leynimöppunni í leyniherberginu á nefndasviði þar sem fjallað er um Parísarklúbbinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hefur hv. þingmaður kynnt sér þetta leyniskjal og hefur hann yfir höfuð kynnt sér hvort það séu tengsl á milli Parísarklúbbsins svokallaða og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?