138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að blanda mér aðeins í þá umræðu sem hefur farið hér fram eftir að hv. þm. Árni Johnsen flutti ræðu sína af miklum eldmóð. Af því að hann talaði þar um hvernig við ættum að berjast fyrir rétti Íslendinga langar mig að fá að vitna hér í svar hæstv. forsætisráðherra þar sem hún var spurð af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hvernig mál hefðu þróast eftir að búið var að setja lögin í ágústmánuði. Með leyfi forseta, er haft eftir hæstv. forsætisráðherra:

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þegar við lukum störfum hér í sumar skrifaði ég forsætisráðherrum Hollands og Bretlands bréf sem ég hef ekki fengið svar við. Það heldur þó ekki fyrir mér vöku að ég hafi ekki fengið svör vegna þess að það tekur tíma í svona milliríkjadeilu að fá svör við bréfum. Stöðug samskipti hafa verið á milli forsætisráðherra þessara landa um þessi mál, og einnig fjármálaráðherra landanna og ég vænti þess að ég fái þessi bréf. Í þessum bréfum skýrði ég fyrst og fremst sjónarmið Íslands í þessari deilu og bað um, — og bað um — ef það gæti leyst málið, að fá fundi með þessum ráðherrum. Þeir sem hafa verið í forsvari fyrir okkur í þessari milliríkjadeilu hafa margoft farið yfir það hvort rétt væri að ég hitti forsætisráðherrana og það hefur ekki verið talið nauðsynlegt. Utanríkisráðherrar landanna hafa hist sem og fjármálaráðherrar og ég held að miðað við allar aðstæður getum við bærilega við unað hvernig þessi deila hefur verið leyst.

Þetta eru orð hæstv. forsætisráðherra. Eftir að Alþingi Íslendinga var búið að samþykkja lög í ágústmánuði stóð hæstv. forsætisráðherra að því að kynna þetta fyrir þeim viðsemjendum okkar, Bretum og Hollendingum.

Auðvitað er þetta, virðulegi forseti, ekkert annað en algjörlega hrein uppgjöf. Mig langar bara að rifja upp það sem einn reyndasti samningamaður í heimi, Lee Buchheit, sagði hér á fundi með fjárlaganefnd í sumar, hann sagði að það væri algjörlega útilokað fyrir Íslendinga að leysa þessa harðsvíruðu milliríkjadeilu á „embættismannalevel“. Það yrði að taka þetta upp á hið pólitíska svið í lok deilunnar, öðruvísi gætum við aldrei leyst þetta á viðeigandi hátt. Hann varaði okkur sérstaklega við að gera það með þessum hætti, einn af reyndustu samningamönnum í öllum heiminum sem er búinn að koma að því að leysa vandamál margra annarra ríkja. En því miður, virðulegi forseti, ákvað ríkisstjórnin að gera þetta svona og það tel ég vera mjög óskynsamlegt af hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað átti hæstv. ríkisstjórn að nýta þá samstöðu sem orðin var í þinginu, fá forustumenn stjórnarandstöðunnar með sér og kynna lögin fyrir Bretum og Hollendingum niðurstöðu Alþingis í þessu máli öðruvísi en gert var.

Virðulegi forseti. Nú er það svo að einungis tveir hæstv. ráðherrar og fjórir hv. þingmenn hafa talað í þessu máli núna við 2. umræðu málsins, þ.e. sex aðilar af 34. 28 hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa ekki séð ástæðu til þess að tala hér og halda ræðu í þessu máli, til að fá að kynna skoðanir sínar fyrir okkur hinum sem höfum efasemdir um að skynsamlegt sé að samþykkja þessa samninga og stefna þar með hugsanlega efnahagslegu öryggi okkar í hættu.

Ég vil, virðulegi forseti, fá að vitna hér í grein sem Eva Joly skrifaði í sumar. Hún byrjaði greinina á því að nú væri verið að setja margra milljarða evruskuld á íslenska þjóð sem þjóðin bæri alls enga ábyrgð á. Merkilegast var þó að hún sagði: „Þetta er skuld sem hún [þ.e. þjóðin] ræður alls ekki við að greiða.“ Þetta voru varnaðarorð Evu Joly sem nýtur nú mikillar hylli hér á landi, en því miður hafa þau orð ekki náð eyrum allra.

Þess vegna bý ég mér þá von í brjósti að margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar geti þá ekki sagt að það sé eingöngu einhver hræðsluáróður í stjórnarandstöðunni að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar.

Það hefur oft komið fram við þessa umræðu að það er óvissa um hvort og hversu mikla ábyrgð við berum á málinu. Menn deila um það eðlilega og margir hafa haldið því fram að þetta þurfi að vera með öðrum hætti.

Mig langar til að vitna hér í, með leyfi forseta, það sem Eva Joly segir í grein sinni.

Millifyrirsögnin er: „Bresk stjórnvöld bera líka ábyrgð.“

Eva Joly segir:

„Brown heldur því ranglega fram að hann og ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á þessu máli. Brown ber siðferðislega ábyrgð þar sem hann var fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu svo mjög því skipulagi sem nú er komið í þrot. En hann ber líka ábyrgð að því leyti að hann getur ekki skýlt sér á bak við lagalega stöðu Icesave, að það heyri formlega undir íslensk yfirvöld bankamála, og sagt að Bretland hafi hvorki haft tök né lagalega stöðu til að fylgjast með starfsemi þeirra. Hvernig er hægt að ímynda sér að 40 manns í Reykjavík hafi getað haft virkt eftirlit með starfsemi banka í hjarta fjármálahverfisins í Lundúnum? Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafnmiklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti …“ Ég ætla að endurtaka þetta: „Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti — nokkuð sem raunar kemur ekki mikið á óvart þegar „frammistaða“ annarra enskra banka í bankakreppunni er skoðuð, banka sem voru alls ótengdir Íslandi. Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafnmikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?“

— Láta íslensku þjóðina axla alla byrðarnar, frú forseti. Þetta skrifar Eva Joly. Þetta er ekki frá stjórnarandstöðunni. Það er þessi virti fræðingur, Eva Joly, sem skrifar þetta.

Síðan langar mig líka, virðulegi forseti, að vitna í viðtal við fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem þekkir þetta mál mjög vel. Hún var utanríkisráðherra og hefði getað lagt mat á Brussel-viðmiðin og þar fram eftir götunum. Hún hefur komið ábendingum áleiðis um að þessir samningar séu í raun og veru ekki í anda Brussel-viðmiðana:

„Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki. Göngum til samninga eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk og hollensk stjórnvöld laus allra mála. Þau eru það auðvitað ekki,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Hún segir að bresk stjórnvöld séu ekkert laus allra mála. Hún leggur áherslu á að Bretar hafi algjörlega einhliða tekið ákvörðun um að tryggja innstæður í breskum bönkum að fullu án nokkurs samráðs. Þess vegna verði þau að bera sína ábyrgð. Það gangi ekki að öll ábyrgðin lendi á Íslendingum.

Hér tekur fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir undir með Evu Joly, í þeim athugasemdum sem þær gera við málið liggur þetta alveg klárt fyrir. Þetta er ekki bara stjórnarandstaða í einhverju málþófi sem talar svona, eins og margir stjórnarliðar hafa haldið fram. Þetta eru orð þessara tveggja mætu kvenna. Ég furða mig á því að margir hv. þingmenn skuli ekki taka þetta mjög alvarlega. Ég hef verið að velta því fyrir mér, frú forseti, hvað hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum mörgum hverjum gengur til. Þegar hv. þingmenn benda á augljósar staðreyndir koma ekkert nema útúrsnúningar og dylgjur frá mörgum, reyndar ekki öllum. Þeir gera lítið úr málflutningi manna sem benda á augljósar hættur.

Hv. þingmenn koma hér upp hver á fætur öðrum með fullt af nýjum upplýsingum og benda á fullt af áhættuþáttum. Hvers vegna gera menn lítið úr því? Hv. þingmenn eru hræddir um að hér sé verið að leggja þannig skuldaklafa á íslenska þjóð að það geti stofnað efnahagslegu öryggi okkar í hættu. Það er ekkert annað sem liggur að baki. Það segir kannski eitthvað um það hvers vegna svona fáir, aðeins tveir hæstv. ráðherrar og fjórir hv. þingmenn, hafa tekið þátt í umræðunni núna í 2. umr. um Icesave-samningana. Það segir kannski eitthvað um það hvers vegna þeir vilja ekki koma hér í pontu því að þá fá þeir stjórnarandstæðinga í andsvör sem láta þá svara þeim spurningum sem þeir vilja hugsanlega ekki svara. Ég (Forseti hringir.) velti því alvarlega fyrir mér, frú forseti.