138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Já, virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir og hefur verið sagt í þessu máli frá upphafi, alveg frá því að við byrjuðum hér snemma í vor, að misvísandi upplýsingar hafa komið um hvort þetta sé bein eða óbein hótun og hvort hún sé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu eða einstökum ríkjum innan Evrópusambandsins. Ég vil bara minna á það, virðulegi forseti, að þegar hv. þingmenn sem greiddu atkvæði með Evrópusambandsumsókninni fóru á Evrópuþing, sögðu breskir og hollenskir þingmenn við þessa ágætu þingmenn okkar Íslendinga, ef þið samþykkið ekki Icesave-samningana eins og þeir eru, fáið þið ekki að ganga inn í Evrópusambandið, það stendur bara ekki til boða. Fyrst semjið þið um Icesave og borgið það sem þar er og þá skulum við hugsanlega taka umsóknina gilda, öðruvísi fáið þið ekki að koma inn í Evrópusambandið. Þannig að það er alltaf verið að hóta bæði óbeint og beint í þessu máli og það er algjörlega óþolandi. Íslenska þjóðin á að standa saman í þessu (Forseti hringir.) máli, en ekki berast á banaspjótum.