138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er dálítið vandmeðfarin leið vegna þess að eins og menn vita vitum við ekki hvað Landsbankinn mun geta borgað mikið. Það hafa reyndar verið í gangi hérna „fake“-tölur og ég ætla að vona að menn tali ekki lengur um 90% endurheimtur hjá Landsbankanum, (Gripið fram í.) því að það er vegna þess … Gervitölur, við getum nefnt þær það fyrir hv. þingmann sem gerði hérna athugasemd við það að ég sagði „fake“, vegna þess að þegar gengi krónunnar fellur, og það er búið að falla um 8% síðan 22. apríl þegar þetta var fest í krónum, þá gerist það að eignir Landsbankans hækka sjálfkrafa af því að þær eru mestallar, 90%, í erlendri mynt. En krónutöluskuldbindingin gagnvart innlánstryggingarsjóði sem á aðrar forgangskröfur sem eru fastar í krónum og breytist ekki neitt. Annars vegar höfum við hækkun vegna gengis og bankinn mun geta borgað sífellt meira og meira, jafnvel 100%, hann fer ekki hærra, þá fer hann að borga almennar kröfur. Á hinum endanum er innlánstryggingarsjóður líka með gengistryggð lán og vexti og þar myndast miklu stærra gat, þannig að (Gripið fram í.) það er ekki gott að Landsbankinn geti borgað mikið vegna gengisfalls krónunnar. Það er mjög slæmt og ég ætla að vona að ég heyri ekki aftur að það sé gott.

Það eru svo margir óvissuþættir í þessu og ef við ætlum að taka lán annars staðar t.d. til að borga þetta, ef við mundum hafa það í krónum þyrfti að skipta því yfir í pund og við eigum ekki svo mikið af pundum, við gætum það ekki. Við yrðum að taka það í pundum eða í annarri erlendri mynt og þá er nákvæmlega sama gengisáhætta eftir sem áður. Ég sé ekki að við losnum undan þessu dæmi. Við gætum hugsanlega lækkað vextina eitthvað því að þeir eru nánast hærri en „junk bonds“, en þá þyrftum við líka að vita hver upphæðin ætti að vera og vera örugg með það að Bretar og Hollendingar endurgreiði okkur. Ég er ekki viss um að þeir mundu gera það.