138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt. Ég spurði fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvað Ísland þyldi mikið, hvar mörkin væru. Hann gat ekki gefið það svar, hann gat ekki sagt að það væru 316% eða eitthvað svoleiðis. Ég spurði hvort 1.000 prósent væri eitthvað sem Íslendingar mundu ráða við. Nei, hann taldi það nú ekki.

Þessi vísindi virðast því vera afskaplega veik og maður freistast til að halda að niðurstaðan sé háð einhverju öðru en vísindum. Með því að halda því fram að þjóðin eigi að geta borgað 310 og jafnvel 350% eru menn komnir út á ansi hála braut. Ég hugsa að menn þurfi að staldra við en efnahagslegu fyrirvararnir frá því í sumar gerðu það að verkum að Icesave-skuldbindingin féll ekki til nema hér gengi allt þokkalega. Það er kosturinn sem var við fyrirvarana, ef hér færi allt í óefni, enginn hagvöxtur o.s.frv., hefðum við ekki borgað neitt. Þetta var kosturinn við fyrirvarana í sumar en nú er það ekki lengur til staðar, nú eru engir slíkir varnaglar. Íslensk þjóð er ekki lengur tryggð með þessum hætti.

Ég held því að samþykkt frumvarpsins muni geta leitt okkur inn á þá braut að verða með þetta svokallaða skuldaóþol, við fáum ekki lán af því að við skuldum svo mikið. Og af því að við skuldum svo mikið getum við ekki borgað og þá fáum við enn síður lán. Þetta getur orðið ákveðinn vítahringur sem við þurfum endilega að forðast. Ég skora aftur á hæstv. ríkisstjórn að staldra rétt aðeins við og sjá hvort Alþingi getur ekki náð betra samkomulagi við Breta og Hollendinga eftir allt það sem hefur gerst í millitíðinni, allt það sem hefur komið fram og sérstaklega þær breytingar sem hafa orðið í heimsviðskiptunum.