138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef áður nefnt hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar rætt um þetta mál í tíma og ótíma undanfarna daga og vikur við öll möguleg tækifæri, fund eftir fund, undir liðnum fundarstjórn forseta, undir liðnum störf þingsins, í óundirbúnum fyrirspurnum og hvenær sem þeir hafa fengið tækifæri til þess.

Eftir að málið komst á dagskrá óskuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar eftir lengdri umræðu sem auðvitað var orðið við. Fundartíminn hefur verið teygður fram á kvöld og fram á nótt til þess að gefa þeim tækifæri til að tjá sig og ræða málið eins oft og lengi og þeir vilja. Þess vegna finnst mér það mjög sanngjörn beiðni frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að fá upplýsingar um það hvað það kostar þjóðina að halda hér dagskrá dagana og næturnar langar, hvað stjórnarandstaðan kostar þjóðina með þessu málþófi sínu. (Gripið fram í: Góður.)