138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Spurning hv. þm. Björns Vals Gíslasonar var ágæt svo langt sem hún nær. Svörin eru sjálfsagt einhvern veginn á þá leið að vissulega er dýrara að halda kvöldfundi en aðra. — Hæstv. forseti. Væri hægt að fá hljóð í hliðarherbergjum þannig að það sé fundarfriður í salnum? — Ég held, hæstv. forseti, að hv. þm. Björn Valur Gíslason og aðrir sem hafa áhyggjur af þeim málum ættu aðeins að velta fyrir sér stærðargráðu mála, hvort þeir eru að tala um krónur eða aura, tíkalla, hundraðkalla, milljónir eða hundruð milljarða. Hér erum við að fást við hundruð milljarða. Við erum að fást við mál sem er stærra en fjárlög íslenska ríkisins, margfalt stærra ef við tökum (Forseti hringir.) vexti og höfuðstól saman.