138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að hugsa um hvernig ég get verið kurteis gagnvart hæstv. utanríkisráðherra því að ég vil gjarnan vera kurteis við ráðherrann. En ég verð að segja að þetta andsvar gerir manni það ansi erfitt að reyna að halda sig á mottunni. Ég get engan veginn tekið undir það að ekkert sé nýtt. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefði t.d. hlustað á mig fyrr í kvöld, þar sem ég var að tala um þá vinnu og þær áhyggjur sem ég hef haft af efnahagslegu forsendunum, það sem hefur komið fram í dag um að erlendar skuldir þjóðarbúsins séu ekki nein 310% heldur eru allt í einu komin upp í 350% — hæstv. fjármálaráðherra kannaðist ekki við að skuldirnar hefðu hækkað en virðist hafa bakkað með það í kvöld.

Hæstv. utanríkisráðherra spurði hvort ég treysti ekki Seðlabankanum. Ég hef ekki séð neins staðar í neinni greinargerð frá Seðlabankanum að þeir hafi fullyrt að við munum auðveldlega geta staðið undir skuldagreiðslum af Icesave eða öðrum skuldum sem við höfum tekið á okkur. Þeir hafa talað um að þetta verði erfitt, það sé mikil óvissa en þeir telji að við getum staðið við greiðsluna. Þeir hafa aldrei notað orðið auðveldlega. Það er eitthvað sem hæstv. utanríkisráðherra er að búa til.

Varðandi það að algerlega nýjar leiðir virðast notaðar til að reikna niður skuldir íslenska þjóðarbúsins held ég að það væri kannski ástæða fyrir hæstv. utanríkisráðherra að setjast niður með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég get ekki sagt eftir þá fundi sem ég hef setið með þeim að þeir hafi ekki áhyggjur af því hvernig skuldastaðan sé hérna og tala um að þær aðstæður sem við erum að fást við séu algerlega einstakar og alveg geysilega erfiðar. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri léttúð sem hæstv. utanríkisráðherra sýnir varðandi framtíð hins íslenska þjóðarbús.