138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tala ekki af neinni léttúð heldur bara af raunsæi en líka nokkurri bjartsýni. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að ég hef haft rétt fyrir mér síðasta árið um þróun efnahags Íslendinga en ekki Framsóknarflokkurinn. Framsóknarflokkurinn hefur allt þetta ár predikað að hér væri allt að fara til fjandans. Við höfum predikað hins vegar á móti með rökum að við værum þrátt fyrir allt að ná okkur upp úr þessum vanda og við sjáum það birtast í því að Ísland hefur staðið sig betur en öll þau viðmið sem t.d. voru skráð í samning okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. (Gripið fram í.)

Hér er töluvert minni samdráttur í landsframleiðslu en spáð var og miklu minna atvinnuleysi. Það sem skiptir þó kannski miklu máli varðandi afstöðumun minn og hv. þingmanns, eða þess flokks sem hún talar fyrir, er að sá flokkur básúnaði það hér dag út og dag inn að það væri að bresta á fólksflótti úr landinu. Ekki eru nema 10 dagar síðan formaður flokksins talaði um að tilteknar aðgerðir mundu enn auka fólksflóttann úr landinu. Hvar er þessi fólksflótti? Hann hefur ekki orðið þannig að það sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja er meira og minna tóm vitleysa.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni sem greindi frá því að hún hefði ásamt öðrum þingmönnum átt þátt í því að búa til hina efnahagslegu fyrirvara og þeir eru auðvitað það sem skiptir verulega miklu máli í þessu.

Ef svo færi að hagþróun yrði hér eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn spáir, að það yrði enginn hagvöxtur og staðan væri þannig að við gætum ekki einu sinni staðið undir vaxtagreiðslunum þá virkjast saman endurskoðunarákvæðið í hinum upphaflega samningi ásamt því ákvæði sem var í hinni þríhliða yfirlýsingu um viðræður. Það liggur því alveg ljóst fyrir að samspil þessara tveggja þátta, viðræðuákvæðisins í yfirlýsingunni og endurskoðunarákvæðisins, gera það að verkum að þetta frumvarp er betra en þau lög sem við samþykktum í sumar. (Gripið fram í: Ertu ekki að grínast?)