138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman rétt sem hv. þingmaður sagði og það er augljóst mál hvað breyttist. Ríkisstjórnin ákvað að beygja sig í duftið fyrir kröfum Hollendinga og Breta. Þetta er ekki flóknara en það. Þess vegna var ákveðið að víkja til hliðar þeim skilyrðum og skilmálum sem Alþingi setti á sínum tíma. Þetta er mjög alvarlegt, m.a. í ljósi þess að á sínum tíma í desember í fyrra voru samþykkt hin svokölluðu Brussel-viðmið sem átti að ganga út frá í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga. Það hefur verið staðfest til að mynda af aðstoðarkonu hæstv. þáverandi utanríkisráðherra að núverandi ríkisstjórn hafi sniðgengið algerlega þessi viðmið í viðræðunum við Hollendinga og Breta, enda fóru þeir hreina sneypuför í þær viðræður á sínum tíma og komu fram með samning sem Alþingi í raun hafnaði. Það var ekki pólitískur meiri hluti fyrir því máli þegar það var borið upp á Alþingi. Þess vegna gerðist það að Alþingi tók málið í sínar hendur, ekki af lýðræðisást ríkisstjórnarinnar heldur vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki vald á málinu og breytti því eins og við vitum í veigamiklum atriðum, setti ákveðin skilyrði, skipaði framkvæmdarvaldinu að framfylgja því. Framkvæmdarvaldið tók málið síðan í sínar hendur, fór til Hollands og Bretlands, gekk á fund ráðamanna, fékk þá þau viðbrögð að þeir væru ekki ánægðir, það hefði verið enn þá betri samningur sem þeir hefðu haft áður. Íslensku stjórnvöldin féllust á þær röksemdafærslur, ýttu fyrirvörunum út af borðinu. Þannig stendur málið núna, því miður, og þess vegna er svona mikil andstaða við það í þinginu. Hæstv. forsætisráðherra hreykti sér sérstaklega af efnahagslegu fyrirvörunum þegar hún lauk umræðunni á sínum tíma í haust og því er það þess hraksmánarlegra að frumvarp þetta sé komið fram.