138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðu hans. Ég ætlaði að fá að ræða aðeins við hann þar sem ég mundi kalla aðrar lausnir á Icesave-málinu, hvort þingmaðurinn hafi eitthvað velt fyrir sér möguleikum á annars konar fjármögnun á því að greiða Bretum og Hollendingum fyrir það sem þeir hafa lagt út fyrir innstæðum í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þetta var rætt aðeins á fundi þess hóps sem vann efnahagslegu fyrirvarana en komst ekki lengra en innan hópsins og ég hef nefnt það í andsvari við hv. þm. Pétur Blöndal og mundi gjarnan vilja koma nánar inn á það í ræðu seinna.

Hugmyndin er sem sagt hvort möguleiki væri á því að fá lánsfé eða fé einhvers staðar annars staðar þannig að við gætum losað okkur undan þessum samningi. Skoðun mín á samningnum er að hann er hörmulegur. Við megum ekki gleyma því að þó að við séum að tala fyrst og fremst um viðaukasamningana sem bætt var við þá gilda upprunalegu samningarnir og þar er ákvæði sem ég held að hverjum einasta þingmanni hrylli við varðandi uppsagnarákvæði og vafaatriði um t.d. yfirráð okkar yfir auðlindum okkar og fleiru.

Hugmyndin var hvort hægt væri að fá nægilegt fé til að borga það sem er talið að mundi standa eftir eftir að búið væri að gera þessar kröfur í stjórnarbúið, sem er áætlað vera einhvers staðar í kringum 200–240 milljarðar að núvirði og það yrði raunar afhent Bretum og Hollendingum með þeim fyrirvara að við áskildum okkur þann rétt til að láta reyna á hvort við ættum raunverulega að standa við þá kröfu þeirra eða ekki. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til að þetta hafi verið skoðað sérstaklega og ég tel mjög mikilvægt að þetta verði skoðað áður en málið verður afgreitt í þinginu og spyr hvort þingmaðurinn tekur undir það með mér.