138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega af ýmsu að taka í þessum efnum. Í fyrsta lagi mætti nefna það sem hefur komið fram af hálfu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og margir aðrir hafa tekið undir, þ.e. að skoða t.d. af fullri alvöru hvort ekki væri hagkvæmara fyrir okkur að fara leið einhvers konar breytilegra vaxta. Hv. þingmaður færði fyrir því mjög sannfærandi rök að sú leið væri mjög líkleg til að spara okkur kannski allt að 100 milljarða kr.

Í öðru lagi fyndist mér einboðið að við reyndum að draga úr gengisáhættunni ef menn á annað borð ætla að fara til þessara samninga vegna þess að hún er mjög veruleg eins og við sjáum.

Í þriðja lagi verðum við að átta okkur á því að gríðarleg óvissa er í öllu þessu mati á eignum bankans. Við sáum að á fjögurra mánaða tímabili rýrnuðu eignir Landsbankans um 38 milljarða kr. en við vitum ekki hvað gerist á næstunni, hvort þær muni vaxa eða minnka. Það er algerlega óskrifað blað og algerlega óljóst fyrir okkur. Þess vegna settum við inn þessa efnahagslegu fyrirvara með tengingum við hagvaxtaraukninguna til að draga úr áhættunni en að öðru leyti held ég að ég tjái mig ekki frekar um málið.