138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum er dagskrá þingsins og hvernig við eigum að standa að því máli. Það er ástæða til að árétta það sem hér hefur komið fram að langflestum þessum málum hefur verið dreift á þinginu bara á síðustu klukkustundum eða dögum án þess að fara á dagskrá. Það hefði ekkert staðið í vegi fyrir því að setja þessi mál á dagskrá ef þau hefðu komið fram fyrr en það er einmitt þar sem meinið liggur. Hæstv. ríkisstjórn kemur seint og um síðir fram með þessi mál. Ég vek athygli á því að samkvæmt starfsáætlun þingsins var gert ráð fyrir því að nú væru nefndadagar sem stæðu fram yfir miðja næstu viku þannig að það er alveg ljóst mál að burt séð frá því hvernig umræðan þróast um Icesave-málið að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í stykkinu. Það er ríkisstjórnin sem er sein til verka við að leggja fram nauðsynleg mál.