138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp vegna orða hæstv. utanríkisráðherra undir þessum lið þar sem hann fullyrðir að það brjóti á einhvern hátt gegn lýðræði að þingmenn tali óhóflega mikið í málinu, sem er mjög undarlegt að heyra frá þessari vinstri stjórn, enda hafa þeir flokkar sem hana skipa óhikað nýtt sér þetta gegnum tíðina. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að þingsköp eru með þessum hætti og þetta er ekki bara á Íslandi, þetta er víðast hvar í hinum vestræna heimi. Þetta er til þess að ríkisstjórnin þurfi að taka tillit til stjórnarandstöðunnar og þetta er öryggisventill þegar ríkisstjórnin er við það að gera stórkostleg mistök. Sú ríkisstjórn sem nú situr er að gera stórkostlegustu mistök í sögu íslenskrar lagasetningar. Það hefur sífellt komið betur í ljós eftir því sem dagarnir hafa liðið og eftir því sem fleiri ræður hafa verið haldnar hér hversu stórkostleg þessi mistök eru þannig að sá tími hefur svo sannarlega ekki farið til spillis. En jafnframt ítrekum við (Forseti hringir.) að stjórnin getur komið með hvaða mál sem hún vill.