138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka enn á ný tilmæli okkar í stjórnarandstöðunni til virðulegs forseta um að skoða það að breyta röð mála á dagskránni þannig að þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt sem mikilvæg fái umfjöllun. Einnig til að tryggja að fjárlög nái fram að ganga, að þau verði tekin á dagskrá og þeim komið áfram til nefndar.

Vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um störf þingsins og tilhögun þeirra í salnum verð ég að segja að það rifjast upp fyrir mér að sagt hefur verið að allt vald spilli, það fari illa með menn að sitja á valdastólunum og þeir gleymi jafnvel þeim meginprinsippum og hugsjónum sem þeir höfðu sjálfir áður en þeir settust í valdastólana. Það er reyndar sjaldgæft að sjá það gerast jafnhratt og með jafnafdrifaríkum og afgerandi hætti og nú virðist vera um þessar mundir þegar maður heyrir hæstv. ráðherra, sem hafa staðið hér lengur en nokkrir aðrir menn í þinginu, (Forseti hringir.) halda ræðu tala um að svipta þurfi minni hlutann í þinginu (Forseti hringir.) þeim sjálfsagða rétti sínum að ræða mál ítarlega.