138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er dálítið athyglisvert að hlusta á þetta málþóf sem er í boði Sjálfstæðisflokksins með tilliti til þeirrar forsögu (Gripið fram í.) sem málið hefur. Ég þykist vita það, virðulegi forseti, að sjálfstæðismenn fara að grípa fram í (Gripið fram í.) en það mál sem er verið að ræða hér er framhald af viljayfirlýsingu sem gerð var í ríkisstjórn undir forsæti fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes. Sú viljayfirlýsing var undirrituð af tveimur sjálfstæðismönnum, Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra, og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra (Gripið fram í.) þar sem m.a. sagði í IX. kafla að Ísland (Gripið fram í.) ætlaði sér að viðurkenna skuldbindingar gagnvart öllum tryggðum innstæðueigendum. Þá væri og ætlunin að vinna með öðrum alþjóðlegum (Gripið fram í.) mótaðilum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, þ.e. breska og hollenska tryggingarsjóðnum, eins og gert var ráð fyrir í EES-lagarammanum. Þetta er gert með því fororði að lánsfjármögnun skuldbindinga fáist hjá hinum erlendu ríkisstjórnum, þ.e. Bretum og Hollendingum. (Gripið fram í.) Samningaviðræður um nákvæm kjör muni eiga sér stað næstu daga.

Virðulegi forseti. Það getur ekki verið skýrara leiðarljósið sem fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks (Forseti hringir.) og Samfylkingar setti og hérna er verið að vinna eftir því. Þess vegna er undarlegt að hlusta á það lýðskrum sem er í boði Sjálfstæðisflokksins á hinu háa Alþingi, (Forseti hringir.) forustuflokksins um hrun íslensks efnahagslífs. (Gripið fram í: Málið er á dagskrá á eftir.)