138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra til að virða fundasköp Alþingis og tala í þessum stól um fundarstjórn forseta þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar treysti sér ekki til að koma í ræðu og útskýra sjónarmið sín og misnoti þennan lið á dagskránni til að koma upp í einnar mínútu yfirlýsingu. Það er hreinlega með ólíkindum, frú forseti, að svo sé komið í þinginu að menn treysti sér ekki til að koma í ræðu og treysti sér ekki til að halda á lofti þeim rökum sem þeir byggja ákvarðanir sínar á.

Frú forseti. Ég mælist til þess að gert verði hlé á þessum fundi og að formenn þingflokka fundi með forseta til að fara yfir það hvernig bragurinn er í þingsalnum og ekki síst hvernig þátttöku hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessum lið er háttað.