138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil hafna því að ég hafi stundað málþóf. Ég hef komið upp í fjórar ræður og í öllum þeim ræðum hef ég tekið efnislega á málinu og fjallað um það út frá sjónarhornum sem jafnvel aðrir þingmenn hafa ekki gert. Ég ætla að halda því áfram í dag og ég ætla að bjóða stjórnarandstöðunni að hlusta á þá ræðu. Sú ræða mun fjalla um að ábyrgð á Icesave-reikningunum (Gripið fram í.) sé e.t.v. á könnu fleiri en okkar Íslendinga. (Gripið fram í.)

Varðandi fundarplanið (Gripið fram í: Það er ekkert fundarplan.) er eitt sem hefur kannski ekki komið nægilega skýrt fram, það var stjórnarþingmaður sem stal fundarplaninu af borði hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og fór með það í blað sitt, Fréttablaðið, (Gripið fram í.) þar sem það var … (Utanrrh.: Hvaða stjórnarþingmaður var það?) — Það er nefnilega ekki vitað og það er það næsta sem ég ætla að segja, forsætisnefnd ætti að láta fara fram rannsókn á því að þingmenn steli gögnum af borðum hver annars.