138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hv. þm. Þuríður Backman sé heiðarlegur þingmaður og vilji vel. En ég er dálítið hræddur um að hv. þingmaður hafi ekki fylgst með gangi þessa máls að undanförnu, hugsanlega vegna þess að ég held að innst inni viti hv. þingmaður hversu óheppilegt það er að fallast á þetta. Til að mynda liggur nú algerlega fyrir að Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru búin að lýsa því yfir að lánafyrirgreiðsla þeirra sé ekki háð nákvæmlega því hvernig Icesave-málið klárast, þ.e. það sé ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða lánin og greiðslur þessara lána til Íslendinga eru reyndar hafnar, enda ef raunin væri sú að verið væri að þvinga okkur til að fallast á þennan samning þyrftum við engu að síður að hugsa okkar gang og velta því fyrir okkur hvort við séum þjóð sem er tilbúin að láta þvinga sig með þeim þætti, en sú staða er ekki fyrir hendi.

Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort klára þurfi þetta mál til að endurreisn efnahagslífsins geti haldið áfram. Því er þveröfugt farið og má öllum ljóst vera sem skoða tölurnar að með því að ljúka þessu máli á þann hátt sem hér er lagt upp með er ekki verið að ryðja úr vegi hindrun fyrir endurreisn efnahagslífsins. Það er verið að festa í sessi hindrun sem kemur í veg fyrir að endurreisnin geti nokkurn tíma átt sér stað, alla vega ekki næstu árin eða áratugina, vegna þess að vandinn sem við stöndum frammi fyrir er númer eitt, tvö og þrjú skuldavandi. Vandi Íslands er ekki framleiðsluvandi eða skortur á náttúruauðlindum. Vandinn liggur í skuldunum og að ætla að leysa skuldakreppu með enn frekari skuldsetningu er fáheyrt. Það hefur reyndar verið reynt og hverjir reyndu það? Það voru íslensku bankarnir sem voru þá lentir í verulegri skuldakreppu og gripu til þess ráðs að reyna að skuldsetja sig enn frekar til að komast út úr kreppunni í von um að þeir gætu þá haldið áfram og málið mundi einhvern veginn leysast. Afleiðingin voru Icesave-reikningarnir.