138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er fjórða ræðan mín í þessu alræmda Icesave-máli, þ.e. í þessari umferð. Í fyrri ræðum fjallaði ég fyrst um vexti og horfur á alþjóðamörkuðum hvað varðaði vexti í nánustu framtíð. Í öðru lagi fjallaði ég um hagvöxt og síðan fjallaði ég um gengisforsendurnar sem Seðlabankinn hefur gefið sér í þessu.

Í dag ætla ég að fjalla um hver ábyrgð okkar Íslendinga er í þessu máli um leið og ég hafna því að ég sé hér með eitthvert ómálefnalegt tuð, eins og stjórnarþingmenn hafa haldið ítrekað fram.

Það virðist mikils misskilnings hafa gætt í umræðunni um hver ábyrgð Breta og Hollendinga er í raun á Icesave-reikningunum. Því er ekki úr vegi að rekja hvernig staðið er að opnun útibús sem tekur á móti innlánum innan EES-svæðisins og hvernig eftirliti með þessum útibúum er háttað. Ef fjármálafyrirtæki með starfsleyfi hyggst opna útibú í öðru landi á EES-svæðinu er um tiltölulega einfalt ferli að ræða. Í fyrsta lagi sendir fjármálafyrirtækið tilkynningu til fjármálaeftirlits þar sem móðurfélag er staðsett. Í tilfelli t.d. Landsbankans sendir Landsbankinn tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins á Íslandi.

Í öðru lagi getur viðkomandi fjármálaeftirlit stöðvað opnun útibús ef fjármálafyrirtæki er fjárhagslega vanbúið á þeim tímapunkti sem umsókn er send inn eða tilkynning er send inn og stjórn er ekki nægilega traust. Þegar Landsbankinn sendi tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins þá hefði því verið hægt að stöðva opnun útibús í Hollandi og Bretlandi af tveim ástæðum, annars vegar að Landsbankinn hefði verið fjárhagslega vanbúinn og hins vegar ef stjórnin hefði ekki verið nægilega traust.

Í þriðja lagi, ef fjármálafyrirtæki uppfyllir kröfur um fjárhagslega burði til að stjórna slíku útibúi tilkynnir fjármálaeftirlit heimaríkis gistiríki um fyrirætlanir fjármálafyrirtækisins. Í tilfelli Landsbankans, ef hann hefði uppfyllt kröfur um fjárhagslega burði og getað uppfyllt skilyrði til þess að stjórna slíku útibúi, hefði Fjármálaeftirlitið á Íslandi tilkynnt fjármálaeftirlitum Hollands og Bretlands um fyrirætlan Landsbankans.

Í fjórða lagi getur fjármálafyrirtækið opnað útibú í gistiríki að uppfylltum almennum skilyrðum gistiríkis, þ.e. ef Landsbankinn hefur uppfyllt almennt skilyrði í Bretlandi og Hollandi þá getur hann opnað útibú þar. Það er því ekki raunverulegt leyfi frá Fjármálaeftirlitinu íslenska eða íslenskum stjórnvöldum fyrir opnun útibús heldur er um einfalda tilkynningu að ræða. Þær fjármálaafurðir sem fyrirtækið ætlar að bjóða upp á þurfa að hljóta samþykki fjármálaeftirlits gistiríkis en eru óháðar fjármálaeftirliti heimaríkis. Þetta er mikilvægt, þ.e. að Landsbankinn þurfti að fá samþykki fyrir afurðum sem hann ætlaði að bjóða upp á hjá gistiríkinu, þ.e. Hollandi og Bretlandi, íslenska fjármálaeftirlitið hafði ekkert um það að segja.

Ef um innlán er að ræða eins og í tilfelli Icesave gera tryggingarsjóðir heima- og gistiríkis með sér samning, þ.e. ef um mismunandi tryggingarupphæð er að ræða, þá er gert svokallað „top-up agreement“, og fjármálafyrirtækið getur hafið móttöku innlána. Með öðrum orðum að í tilfelli Landsbankans gerði íslenski tryggingarsjóðurinn samning við Breta vegna þess að þeir voru að borga meiri tryggingarvernd en íslenski tryggingarsjóðurinn og Landsbankinn gat eftir það hafið móttöku innlána.

Þá kemur að eftirlitinu. Það hefur verið gagnrýnt mikið að Íslendingar hafi verið með slælegt eftirlit með Landsbankanum og Icesave-reikningunum. Reglurnar eru raunverulega af tvennum toga. Fjármálaeftirlit heimaríkis, þ.e. Fjármálaeftirlitið hér á Íslandi, hefur hefðbundið eftirlit með móðurfélagi og reyndar útibúum líka. Hefðbundið eftirlit með móðurfélagi þýðir það að Landsbankinn hér á Íslandi er undir eftirliti Fjármálaeftirlits og þarf að uppfylla lög og reglur sem lúta að starfsemi fjármálafyrirtækja, fjármálaeftirliti gistiríkis, og þetta er gríðarlega mikilvægur punktur, hæstv. utanríkisráðherra, gríðarlega mikilvægur punktur.

Fjármálaeftirlit gistiríkis, þ.e. fjármálaeftirlit í Bretlandi og Hollandi, hafa með neytendavernd að gera, þ.e. eftirlit með innlánsreikningum í þessu tilfelli auk þess sem þeir eiga að tryggja eða gæta að lausafjárstöðu útibúsins. Þetta felur í sér að Bretar og Hollendingar, fjármálaeftirlitið í þeim löndum hafði með neytendavernd að gera en ekki íslenska fjármálaeftirlitið. Eftirlit með útibúi er því bæði í höndum fjármálaeftirlits gistiríkis og heimaríkis. Eins og hér hefur verið rakið getur heimaríkið, í þessu tilfelli Ísland, stöðvað opnun útibús ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust, og fjármálastofnunin þarf að uppfylla bæði skilyrðin.

Það að stöðva fjármálafyrirtæki í þeirri ætlan sinni að opna útibú á þessum tveim skilyrðum jafngildir því að svipta þurfi móðurfélag starfsleyfi í heimaríki. Út af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að ef fjárhagslegir burðir eru ekki fyrir hendi eða stjórnun fyrirtækisins er ábótavant er fjármálaeftirlitinu skylt að svipta móðurfélagið starfsleyfi. Það er því augljóst að þessi leið var ekki fær hér heima. Einungis gistiríkið, þ.e. Bretland og Holland í þessu tilfelli, getur stöðvað útibú í þeirri fyrirætlan að opna innlánsreikninga að því gefnu að móðurfélag hafi þá starfsleyfi í heimaríki. Það eru því Bretar og Hollendingar — og þessu er mikilvægt að halda til haga — sem gáfu leyfi fyrir því að netreikningarnir sem báru ofurvexti voru boðnir í þessum löndum. Þessari ábyrgð hafa þeir vikið sér undan og Íslendingar ekki sótt það nægilega fast að þeir beri líkt því mikla ábyrgð og Íslendingar ef ekki meiri, þ.e. hvað varðar eftirlit.

Það voru einnig Bretar og Hollendingar sem áttu að hafa eftirlit með lausafé í útibúum en eins og er kunnugt var það lausafjárskortur sem knésetti Landsbankann. Að vísu átti íslenska fjármálaeftirlitið líka að hafa eftirlit með lausafé, en það var fyrst og fremst á ábyrgð breskra og hollenskra stjórnvalda í þessu tilfelli að tryggja lausafjáreftirlit. Ábyrgð breskra og hollenskra yfirvalda virðist því vera umtalsverð í ljósi þess sem ég hef sagt. Til að undirstrika enn frekar ábyrgð gistiríkis, þ.e. Hollands og Bretlands, er rétt að benda á að fjármagnstekjuskattur af reikningum, Icesave-reikningunum, rann til gistiríkjanna en ekki hingað til Íslands og rökin voru m.a. þau að það þurfti að standa undir eftirliti með reikningunum í gistiríkjunum.

Það er rétt að halda þessum atriðum til haga þegar lagaleg, þjóðréttarleg og siðferðileg ábyrgð Íslendinga á Icesave-reikningunum er tíunduð. Það eru þessi atriði sem eru grunnurinn að samábyrgð og jafnræði sem okkur stjórnarandstöðuþingmönnum hefur verið svo tíðrætt um. Hér hafa gengið um aðilar í þjóðfélaginu eins og kaþólikkar í Brasilíu á trúarhátíð og barið sjálfa sig á bakið með svipu og talið sig bera siðferðilega ábyrgð á þessu. Eins og ég hef sýnt hér fram á er það alrangt að fólk þurfi að pína sjálft sig með því. Þetta er vissulega á ábyrgð Íslendinga en líka Hollendinga og Breta.