138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnast þetta athyglisverðar vangaveltur og rökræður sem ég á við hv. þingmann en ég tel að það sé rökvilla í þeim. Ef Landsbankinn hér heima uppfyllti öll lög og allar reglur, og af því dregur hv. þingmaður þá ályktun að það hafi ekki verið hægt fyrir Fjármálaeftirlitið að svipta hann starfsleyfi, hann hefði orðið gjaldþrota, hvernig átti þá hollenska fjármálaeftirlitið, í tilviki Hollands, að stemma stigu eða reisa skorður við starfsemi hans vegna þess að Landsbankinn hlýtur líka gagnvart hollenska fjármálaeftirlitinu að hafa uppfyllt þessar skyldur og reglur? Málið ber því að sama brunni. Mér sýnist að þarna sé ákveðin nauðhyggja hjá hv. þingmanni að það hafi einfaldlega ekki verið hægt, hvorki af hálfu hins íslenska né hollenska fjármálaeftirlits, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, sem mér finnst að hefðu verið nauðsynlegar þegar ég horfi til baka úr þessum ræðustóli, vegna þess að það hefði leitt til þess að Landsbankinn hefði komist í greiðsluþrot.

Þetta er sú ályktun sem ég dreg þannig að þá mætti náttúrlega líka segja að ef íslenska fjármálaeftirlitið gat ekki brugðist við gat hið hollenska það ekki heldur. En ég spyr hv. þingmann: Hefði það samt sem áður ekki verið betra? Ég veit það ekki, hv. þingmaður er miklu meiri sérfræðingur en ég, en hefði það bara ekki verið betra að þetta hefði verið gert á þessum tíma? Hefði það ekki leitt til þess að þessi banki hefði hugsanlega hrotið fyrir ætternisstapa en hinir tveir hefðu samt sem áður lifað? Ég spyr hv. þingmann um það hvort þetta hafi kannski ekki bara verið bölvuð mistök.