138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágætisspurningar. Hvað varðar það að við ábyrgjumst að fullu innstæður í bönkum sem útlendingar eiga þá hef ég alls ekki áhyggjur af því. Í fyrsta lagi er það óhjákvæmilegt og í öðru lagi held ég að það skapi enga nýja áhættu eða öðruvísi áhættu. Að vísu hef ég þó nokkrar áhyggjur af því að eignarhaldið — við vitum ekki hverjir þessir erlendu eigendur eru. Það hafa verið sögur um að það hafi verið það sem menn kalla hrægammasjóði eða „vulture funds“ sem hafi verið að hirða upp skuldabréf bankanna og hafi á þann hátt eignast hlut í bönkunum og spurningin er þá: Eru það nægilega traustir bakhjarlar fyrir íslenska bankakerfið að vogunarsjóðir eigi stóra hluti þar? Það er spurning sem mér finnst meira varið í að spyrja.

Jafnframt er athyglisvert að velta fyrir sér því að nú er gengið mjög hart fram gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum í að innheimta skuldir af bönkunum og það mun eingöngu verða til að hámarka hlut þessara útlendinga, ekki hlut ríkisins nema að örlitlu leyti.

Eitt atriði hvað varðar breska eftirlitið. Breska eftirlitið hefur gefið út að þeir ábyrgist ekki innstæður í dótturfélögum fyrir utan Bretland. Þar stóð hnífurinn í kúnni, að þeir vilja ekki ábyrgjast innstæður í dótturfélögum á Ermasundseyjunum. Ég held að þeir ábyrgist í útibúum og ég held að það standi ekki ágreiningur um það.