138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Enn á ný kem ég í þennan ræðustól til að ræða hið mikilvæga mál, Icesave-málið svokallaða. Það er eiginlega orðið kostulegt að fylgjast með því sem hefur verið kallað „spinn“ stjórnarliðanna. Núna snýst spinnið greinilega um, miðað við þann málflutning sem þeir hafa viðhaft í andsvörum, að það sé ekkert nýtt í þessari umræðu, það hafi ekkert nýtt komið fram. Þeir viti þetta allt saman og við stöndum hér og höldum uppi grímulausu málþófi, segir þetta fólk. Þrjóska ríkisstjórnarinnar er svo mikil að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hlusta ekki, þeir geta ekki viðurkennt að hér hafa oft komið mjög áhugaverðar upplýsingar, nú síðast í ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. En allt er þetta eins og að skvetta vatni á gæs og það er orðið verulega þreytandi.

Hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson kom í andsvar á bloggtímanum sínum í gærnótt og hélt því fram fullum fetum að það frumvarp sem við ræðum núna væri miklu betra en fyrirvararnir og lögin sem við samþykktum í sumar. Það gerir hann í þeirri von og trú að það enginn taki mark á því sem hann segir, alla vega eftir kl. 12 á nóttunni, og það er sorglegt. Auðvitað er þetta mál ekki betra en það sem við vorum með í sumar. Það vita það allir og þeim hefur stundum orðið á að viðurkenna það ef hart hefur verið gengið eftir en svo koma þeir hér og reyna að halda þessu fram einungis til að blekkja. Það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram.

Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði í gær um að þetta snerist um sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar, kannski ekki síst vegna efnahagslegs sjálfstæðis sem mörgum þykir vera í stórhættu, verði þetta samþykkt. Ég hef sagt það áður að mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna við erum komin í þá stöðu að stjórn og stjórnarandstaða á Íslandi séu farin að karpa um mál sem ættu að vera svo borðleggjandi að við ættum að standa saman gegn viðsemjendum okkar. Við erum að karpa og rífast, við erum að slíta þjóðina í sundur út af þessu. Fólk er orðið þreytt á þessu, við erum öll orðin þreytt á þessu en við getum ekki beygt okkur í duftið og gefist upp. Við eigum að standa saman sem aldrei fyrr en það ríkir fullkomið vantraust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli.

Það eru sífellt að birtast nýjar greinar. Það eru nýjar greinar í Morgunblaðinu í dag og ein vakti athygli mína. Hún er skrifuð af Kristjáni Gíslasyni sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri og núverandi stjórnarformaður tveggja íslenskra fyrirtækja. Hann talar um þetta út frá virðingu gagnvart þjóð sinni. Með leyfi forseta vil ég fá að grípa niður í grein Kristjáns. Hann segir:

„Það eru hin gríðarlegu áhrif sem aðdragandi og úrvinnsla Icesave-málsins hefur haft á okkur sem þjóð – hvernig við höfum smátt og smátt verið að missa sjálfstraustið og í raun sjálfsvirðinguna.“

Það er það, frú forseti, sem mér þykir svo alvarlegt og ég tek undir með Kristjáni. Þá bendir stjórnarandstaðan á okkur og segir að við séum óábyrg, að við séum lýðskrumarar og það er talað um að við séum með grímulaust málþóf. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gekk svo langt að segja að það væru gloppur í þingsköpunum í umræðum í morgun vegna þess að minni hlutinn hefur rétt á að tjá sig og hann getur beitt þingsköpunum þannig að á hann sé hlustað. Það er mjög sorglegt. Síðast þegar ég gáði, fyrir svona 5 mínútum, voru það 24.142 Íslendingar sem kalla á okkur í stjórnarandstöðunni og biðja okkur um að verja hagsmuni Íslands. Ég er ekki viss um að þeir 39 stjórnarliðar sem hafa gefið sig út fyrir að styðja þetta mál … (Gripið fram í.) Fyrirgefið, við erum 29 í stjórnarandstöðunni, takk fyrir leiðréttinguna hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, við erum 29, þau eru 34 og svo kemur náttúrlega í ljós hversu margir styðja þetta á endanum. Það hafa einhverjir fallið úr fylkingunni og Samfylkingarfélög hér og þar um landið ákalla samstarfsflokkinn um að ganga í takt, við vitum það. En gefum okkur að það séu 34 stjórnarliðar sem styðja þetta mál, þá bendi ég þeim á að það eru 24.142 Íslendingar sem eru þeim ósammála. Enn sem komið er eru það 24.142 og ég trúi því að þeim eigi eftir að fjölga. Það er í þeirra nafni sem við tölum hér vegna þess að þetta snýst um áhættu fyrir íslenska þjóð fyrir utan það sem ég nefndi um virðingu. Þetta snýst um að við sem stöndum hér getum ekki tekið þessa áhættu í nafni íslenskrar þjóðar. Geta t.d. hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra komið hér og staðfest við okkur sem sitjum í þessum sal að endurheimtur úr þrotabúi Landsbanka Íslands verði í kringum 90% og það „litla“ sem eftir er, vegna þess að þetta eru allt stórar fjárhæðir, munu falla á íslenska ríkið? Geta þessir ágætu hæstv. ráðherrar fullyrt við og þjóð að þessi niðurstaða verði ofan á og að það sé ekki nokkur möguleiki á því að þetta hlutfall lækki og verði t.d. eitthvað innan við 50% eða fari niður í 0? Geta þessir hæstv. ráðherrar staðfest það? Ég held nefnilega ekki. Þeir geta ekki staðfest þetta og það sem meira er, ef það er eitthvað sem við hefðum átt að læra af þessu hruni er það að taka ekki séns. Við getum ekki gengið áfram með eitthvert „þetta reddast“-hugarfar. Við settum það í lög í sumar að Íslendingar væru ekki lengur tilbúnir að taka áhættu. Við takmörkuðum efnahagslegu áhættuna með því að setja þessa fyrirvara inn og hæstv. utanríkisráðherra kemur og segir að þetta frumvarp sé betra.

Af hverju er ekki gerður aðsúgur að hæstv. utanríkisráðherra af fjölmiðlamönnum og hann látinn útskýra mál sitt? Af hverju er hæstv. utanríkisráðherra ekki látinn standa fyrir máli sínu? Hvað er það í þessu sem er betra? Mér er fyrirmunað að skilja það og þetta var efnahagslegi fyrirvarinn sem ég nefndi. Hvað þá með lagalegu fyrirvarana, einkum þann sem kenndur er við Ragnar H. Hall sem Ragnar H. Hall sjálfur segir að sé búið að tæta niður? Ragnar H. Hall segir í grein sinni sem er búið að vitna margoft í, með leyfi forseta:

„Það er sjálfsagt til lítils að rökræða um efni þess, þar sem málið er talið „þreytt“ og fullvíst talið að stjórnarþingmenn muni samþykkja frumvarpið, hvað sem tautar og raular. En það má reyna.“

Þess vegna stöndum við hér og ef hv. stjórnarþingmenn vilja kalla það málþóf þá verði þeim að góðu. Ég tala fyrir sjálfa mig og ég er ekki að beita neinu málþófi.

Svo eru sjónarmiðin sem koma fram t.d. í máli hæstv. fjármálaráðherra fullkomlega ósamrýmanleg. Það hefur allt gengið svo vel, sagði hann í gær, miklu betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði. Hann sagði að við í stjórnarandstöðunni værum með dómsdagsspár og gekk svo langt að segja að það væru alvarlegar dylgjur — óstaðfestar lausafregnir, kallaði hann þau orð sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lét falla. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi er farin að vera með óstaðfestar lausafregnir. Hvers konar málflutningur er þetta? En þótt allt sé svo gott og það eru óstaðfestar dylgjur ef eitthvað er gagnrýnt, kemur hræðsluáróðurinn. Ef Icesave klárast ekki verður hér ísöld, þá verður hér frostavetur, þá fer allt á hliðina. Það eru ekki óstaðfestar lausafregnir, það er sannað, og þau bera lánshæfismatsfyrirtækin fyrir sig, sömu lánshæfismatsfyrirtæki og gáfu okkur alltaf bestu einkunn. Frú forseti. Mér er nákvæmlega sama um þessa einkunn lánshæfismatsfyrirtækjanna. Þau geta hlustað á málflutning okkar og þau geta verið algerlega viss um að við ætlum ekki að láta kúga okkur í þessu.

Frú forseti. Það er eftir sem áður. Nú á ég 25 sekúndur eftir og ég er rétt að byrja. Ég ætlaði að tala um ummæli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði um að það væru stórkostleg afrek, og ég get alveg tekið undir það, sem lítil íslensk stjórnsýsla hefur unnið við að endurreisa efnahag okkar. Hann kvartaði undan því að hún kæmist ekki yfir margt. Á sama tíma leggur hann þessa sömu stjórnsýslu undir Evrópusambandsumsókn sem hann er á móti. Ég ætlaði t.d. að fjalla um það í nokkru máli. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég kemst því miður ekki yfir það í þessari ræðu þannig að ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.