138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni kærlega fyrir yfirferð hans. Einmitt slíkar spurningar hafa vaknað við afgreiðslu þessa máls varðandi þennan innstæðutryggingarsjóð sem við þurftum að undirgangast að stofna með lögum árið 1999 þar sem við vorum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Allt er þetta stóra mál því rakið til þess að við gengum í EES. Ég veit að Norðmenn eru mikið farnir að skoða hvort það borgi sig ekki að segja þeim samningi upp því þeir meta það svo að ókostirnir séu fleiri en kostirnir. Við hér á Íslandi erum náttúrlega alltaf að reka okkur hvað þetta hefur að segja. Til dæmis hlustaði ég á auglýsingu í morgun sem ég tel að brjóti í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samtök iðnaðarins voru að auglýsa íslensk jólatré en þetta má ekki samkvæmt EES-samningnum. Það er ágætt að fólk viti það, því Samtök iðnaðarins hafa að nokkru leyti tekjur sínar frá ríkinu. En þetta var útúrdúr.

Þingmaðurinn talaði um þessa ríkisábyrgð sem verið er að setja á Íslendinga. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á að Evrópusambandið hefur nú þegar samþykkt reglugerð sem gengur út á að innstæðutryggingarsjóðir beri ríkisábyrgð og að hver innstæðueigandi eigi á hverjum reikningi tryggingu fyrir því að 50.000 evrur séu greiddar fari banki á hausinn. Þessi reglugerð var sett í júní 2009 af Evrópusambandinu og er fyrirmynd þess frumvarps til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem viðskiptaráðherra hefur lagt fram. Því spyr ég þingmanninn: Hvers vegna er verið að leggja afturvirka ríkisábyrgð á okkur Íslendinga þar sem það er viðurkennt með þessari júníreglugerð Evrópusambandsins (Forseti hringir.) að hún var ekki til staðar? Reglugerðin sannar að ríkisábyrgðin var ekki til staðar.