138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að menn skoði þetta í þaula því að þetta er nokkuð sem menn verða að taka mjög alvarlega ef staðreyndin er að þessi hætta sé fyrir hendi.

Hv. þingmaður er lögfræðingur og því langar mig að velta einu upp. Nú kemur í ljós í breytingum á þessum nýju samningum sem eru gerðar á fyrirvörunum að sett er svokölluð EFTA-krækja á samningana, m.a. á Ragnars H. Halls-ákvæðið, þar sem Hæstiréttur verður að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Skýringin sem við höfum fengið, fengum reyndar á símafundi með breskum lögfræðingi, er sú að í raun og veru treysti bresk og hollensk stjórnvöld ekki íslenskum dómstólum. Ef Alþingi samþykkir þetta frumvarp, tekur Alþingi þá undir vantraust á íslenska dómstóla? Hver er skoðun hv. þingmanns á því ef Alþingi Íslendinga tekur undir vantraust á íslenska dómstóla, er það ekki háalvarlegt mál?